139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[18:58]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvorki er um misskilning að ræða hjá mér né misminni. Þegar ég ásamt fleiri þingmönnum lagði fram þingsályktunartillögu um að gefa ætti þjóðinni kost á því að greiða atkvæði um hvort halda ætti þessu viðræðuferli áfram eða ekki kom hæstv. utanríkisráðherra í ræðustól og taldi það hina mestu firru og algjörlega óþarft því að samningur mundi jafnvel liggja fyrir að hausti 2011. Þannig tók hann á þeim röksemdum að þjóðin ætti að fá að koma að málinu, sem er náttúrlega eina leiðin og eina vitið miðað við hvað Íslendingar eru afskaplega mikið á móti aðild.

Þrátt fyrir að hæstv. utanríkisráðherra sitji hér og segi að hann hafi aldrei talað um hraðferð inn í Evrópusambandið gerði hann það víst. Sú sem hér stendur er frekar minnug á ummæli, sérstaklega þau sem snúa að Evrópusambandinu því að það er stærsta málið sem við komum til með að standa frammi fyrir, eins og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, sagði og það er mitt hjartans mál að Íslendingar gangi aldrei í Evrópusambandið því að það ásælist fyrst og fremst auðlindir okkar.

Mig langar til að spyrja þingmanninn aftur, af því hann kom ekki að því í fyrra svari að Tyrkland fengi 50% af öllum IPA-styrkjum Evrópusambandsins á árabilinu 2007–2013. Hvernig stendur á því þar sem mannréttindi eru brotin í Tyrklandi og líklega koma þeir aldrei til með að uppfylla hin svokölluðu Kaupmannahafnarviðmið? Ísland virðast að vísu heldur ekki uppfylla þau. Nú er komið bréf til ESA þar sem beðið er um að lagt verði mat á hvort mannréttindi hafi ekki verið brotin hér á landi vegna lánamála og bankahrunsins.

Svo langar mig til að minna þingmanninn á að Svíar og Finnar fengu norðurslóðastyrki en ekki styrki frá Evrópusambandinu (Forseti hringir.) og var þessum ríkjum náðarsamlegast veitt heimild til að (Forseti hringir.) halda áfram að styrkja landbúnaðinn.