139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[19:56]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta voru fjölmargar spurningar og sumum þeirra verð ég að svara síðar í kvöld. Að því er gengismálin varðar sagði hv. þingmaður að því hefði verið lofað að umsóknin mundi strax leiða til þess að gengið mundi styrkjast (REÁ: Breytast.) — mér skildist það en hélt að hv. þingmaður væri að vísa í sama ráðherra og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir fyrr í dag. En ég verð að minnsta kosti að segja algjörlega skýrt að ég hef aldrei sagt það. (Gripið fram í.)

Um IPA-styrkina voru þrjár eða fjórar spurningar. Ég held að eftir því sem hægt er sé þeim flestum svarað í svari mínu við skriflegri fyrirspurn hv. þm. Birgis Ármannssonar. Um heildaráætlunina sem hv. þingmaður spyr um kemur kannski ekkert fram í því svari. Hún liggur ekki fyrir, það er ekki búið að ganga frá því máli. Það er sem sagt ekkert í gadda slegið enn þá eða búið að ákveða hvaða verkefni verði endanlega inni.

Að því er varðar spurningu hv. þingmanns um það hvort VG hafi sætt sig við að vera í NATO held ég að ég geti óhikað fyrir hönd þess ágæta stjórnmálaflokks svarað þeirri spurningu neitandi. Af þessu tilefni vil ég líka rifja það upp sem ég hef áður sagt af sama tilefni í umræðu við hv. þingmann að það er ekki markmið mitt með þeirri tillögu sem hv. þingmaður vísaði til að Ísland gangi úr Atlantshafsbandalaginu. Ég hef lýst yfir stuðningi við það. Ég tel rétt af Íslandi að vera áfram innan þess bandalags.

Hv. þingmaður ræddi mál sem við höfum oft rætt og tengist niðurlagningu Varnarmálastofnunar. Hún spurði hvort það væri ágreiningur millum flokkanna sem nú mynda ríkisstjórn, eða ég skildi spurninguna þannig, sem ylli því að ekki væri endanlega búið að hnýta alla hnúta varðandi vistun verkefna hinnar fyrrverandi Varnarmálastofnunar. Ég held að ekki sé hægt að líta svo á málið. Ég vísa til þess að fulltrúar beggja flokka í utanríkismálanefnd skrifuðu undir nefndarálit þar sem var alveg klárt (Forseti hringir.) að ætlunin var að láta þessi verkefni til Landhelgisgæslunnar eftir því sem rétt væri. Hin endanlega niðurstaða (Forseti hringir.) er enn ekki komin en hv. þingmaður veit hvernig staðan er í málinu.