139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[20:01]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekkert víðs fjarri skoðunum hv. þingmanns um Atlantshafsbandalagið og veru okkar þar. Ég tel að hún skipti máli og að það séu engin rök sem hníga að því að við eigum að velta því fyrir okkur að ganga úr Atlantshafsbandalaginu. Það eru hvorki miklar kröfur uppi um það hér á landi né annars staðar og eftir því sem mér hefur sýnst á síðustu árum sætta menn sig mun betur við bandalagið en áður. Það hefur með ýmsum hætti komið fram áður að það er meiri sátt um bandalagið en var að minnsta kosti hér áður fyrr. Ljóst er að með því að herinn fór úr landi er fjarlægður sá ásteytingarsteinn sem reis af dvöl þar. Það var hún sem menn deildu um fyrst og fremst, miklu frekar en aðildin að NATO. Nú kann að vera að ýmsir félagar mínir í stjórnarliðinu séu annarrar skoðunar.

Að því er ERM II varðar munum við ekki falast eftir að ganga inn til þess samstarfs sem það býður upp á fyrr en það liggur fyrir að þjóðin hafi ákveðið að ganga í Evrópusambandið. Hins vegar kemur á allra næstu dögum fram skýrsla með úttekt á þeim möguleikum sem það býður upp á, hvað Íslendingar þurfa að gera og með hvaða hætti við þurfum að taka til í okkar ranni til að geta notfært okkur þann aðdraganda að inngöngu í myntbandalagið sjálft. Eins og hv. þingmaður veit er ríkjunum í sjálfsvald sett hvenær þau ganga í myntbandalagið. Sum ríki hafa verið töluverðan tíma innan ESB án þess að taka upp evruna. Þeim er það í sjálfsvald sett.

Ég vænti þess að þegar þessi skýrsla kemur fram verði hún kynnt fyrir bæði utanríkismálanefnd og sennilega efnahags- og viðskiptanefnd líka og held að í henni felist margt mjög fróðlegt.