139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[20:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir þetta síðasta hjá hv. þm. Helga Hjörvar, um þróunaraðstoðina. Ég held að það sé til skammar hvað Íslendingar standa illa þar. Hins vegar var ræða hv. þingmanns dálítið sveiflukennd. Eins og góður sölumaður gerir seldi hann Evrópusambandið, eins og fleiri hafa gert á þessum fundi hv. Alþingis, og talaði um hóflega vexti o.s.frv. Nú vill svo til að verðbólga er að aukast í evrulandinu og það mun væntanlega leiða til hærri vaxta. Þeir geta hugsanlega orðið hærri en á Íslandi innan tíðar vegna þess að á Íslandi ríkir algjör stöðnun. Það eru engar fjárfestingar og ekki neitt þannig að fjármagnið getur ekki farið neitt, það eru gjaldeyrishöft og vextir munu væntanlega lækka þannig að hv. þingmaður er í rauninni að lofa okkur hærri vöxtum.

Svo ræddi hann um að við yrðum nauðbeygð til að fara á hausinn einu sinni enn. Það er aldeilis bjartsýni þar á ferðinni, þess vegna tala ég um sveiflur í ræðunni. Þar af leiðandi yrðum við að ganga í Evrópusambandið. Nú höfum við ekki farið á hausinn nema einu sinni síðan við urðum sjálfstæð þjóð eftir baráttu Jóns Sigurðssonar og ég sé ekki að það muni gerast aftur, ekkert endilega, og það var samkvæmt reglum frá Evrópusambandinu sem við fórum á hausinn.

Svo talaði hann um sjávarútveginn, talaði um staðbundna stofna, að Evrópusambandið væri að breyta o.s.frv. Ef Evrópusambandið getur breytt þessu svona getur það breytt því á hinn veginn eftir tíu ár. Ef við göngum inn með einhverju loforði um staðbundna stofna og annað slíkt breyta þeir bara aftur og leyfa Bretum og Spánverjum að veiða aftur við Ísland.

Svo vil ég spyrja hv. þingmann spurningar sem ég hef spurt fleiri. Hann er með þá sannfæringu að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið en hvernig rímar það saman við 48. gr. stjórnarskrárinnar sem segir að alþingismenn séu eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum? Hvað gerist ef þjóðin segir nei og hv. þingmaður verður þá að segja nei líka?