139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[20:37]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst aðeins um það að fara á hausinn. Það sem skiptir meginmáli í því efni er að við eigum þann kost að vera einangrað eyríki, efnahagslega sjálfstæð heild með 0,3 milljóna manna markað og njóta þeirra lífskjara sem hægt er að byggja á því. Það er út af fyrir sig afstaða. Hins vegar getum við ákveðið að vera aðili að 500 milljóna manna markaði og þá fullgildur þátttakandi í eftirliti á þeim markaði, í því skrifræði sem byggt er upp í kringum þann markað, þeim samfélagsstrúktúrum og þeim stjórnmálalegu ákvörðunum sem þar eru teknar. Það að reyna að gera hvort tveggja mun augljóslega leiða til ófarnaðar vegna þess að ástæðan fyrir því að menn byggja ríkjasambönd eins og Evrópusambandið er að ella vaxa hin fjölþjóðlegu fyrirtæki hinum einstökum ríkjum yfir höfuð, einmitt eins og gerðist með íslensku bankana hér. Það mun einfaldlega endurtaka sig ef við ekki breytum þessari skipan okkar.

Hvað varðar sannfæringu þingmanna er það svo einfalt að það getur hæglega verið sannfæring fjölda þingmanna að vilji íslensku þjóðarinnar eigi að ráða í tilteknu máli. Það getur verið sannfæring fjölda þingmanna að leggja mál þess vegna í atkvæðagreiðslu meðal þjóðarinnar og það getur verið sannfæring þeirra að það sé rétt í ljósi þeirrar niðurstöðu að fylgja henni fram með atkvæði sínu á þingi. Það stangast í engu á við greinar stjórnarskrárinnar.