139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[20:41]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ekki veit ég alveg hvers vegna sá sem hér stendur er að svara fyrir þá sem kynnu að hafa haft efasemdir um aðild að Evrópusambandinu og hvaða áhrif sannfæring þeirra hefði á atkvæðagreiðslu í þinginu. En látum gott heita, það er auðvitað algerlega augljóst að það getur verið afstaða alþingismanns að ákvörðun í tilteknu máli sé betur komin hjá öðrum, jafnvel þó að hún sé á annan veg en hann hefði sjálfur tekið hana, hún sé til dæmis betur komin í höndum (Gripið fram í.) félagasamtaka, sveitarfélaga eða skipulagsyfirvalda. Alþingismaður getur haft sannfæringu fyrir því að taka ákvarðanir á þingi sem fylgja því eftir og ég sé enga árekstra í því í sjálfu sér.

Um metnaðarleysið fyrir hönd Íslendinga verð ég þó einfaldlega að mótmæla hv. þingmanni. Metnaður minn er sá að Ísland sé sjálfstæð þjóð. Það er hún ekki ógjaldfær norður í höfum með gjaldeyrishöft um þá mynt sem hún ein notar. Þjóð í höftum er ekki sjálfstæð þjóð. Ég vil að Ísland sé sjálfstætt ríki, fullburða þátttakandi í samstarfi Evrópuríkja og hafi kjark, áræði og þor til að reyna að hafa pólitísk áhrif á þá stefnumörkun sem þar fer fram en afgreiði ekki bara lagasetninguna hér eins og hverjar aðrar stimpilvélar, þá lagasetningu sem kemur frá Brussel og aðrir taka fyrir okkur. Það er metnaður, hv. þingmaður.