139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[20:50]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sá er reginmunurinn á þeim gjaldmiðli sem hv. þingmaður fjallar um með þeim hætti sem hann gerði og þeim lögeyri sem hann sjálfur leggur til að íslenskt atvinnulíf byggi á og treysti á að menn eru tilbúnir til að eiga viðskipti með hinn fyrrnefnda, sem hann spáir öllum þessum hrakförum, (GÞÞ: Ég var búinn að ...) kaupi hann og selji hann á markaði. En um íslensku myntina, íslensku krónuna, er því þannig háttað að hana kaupir enginn á markaði, nema á svörtum markaði eins og myntir kommúnistaríkjanna á síðari hluta 20. aldar vegna þess að hún felur því miður ekki í sér þau verðmæti sem mynt þarf að gera og hún veldur því að við búum við gjaldeyrishöft sem óhjákvæmilega mun bitna á lífskjörum á Íslandi þar til við vinnum okkur út úr því og bjóðum almenningi og atvinnulífinu í landinu upp á annan og betri valkost. Og hvað svo sem hv. þingmaður kann að hafa í handraðanum, af hrakspám um myntir annarra ríkja, þá eiga þær margar það sammerkt að hafa á undanförnum árum og áratugum boðið upp á meiri stöðugleika og festu og lægra vaxtastig en íslenskt atvinnulíf og almenningur hefur þurft að búa við.