139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[21:02]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Smám saman er að renna upp fyrir mér ljós hvað hv. þingmaður á við þegar hún segir að sjávarútvegsfrumvörpin kunni að hafa einhver áhrif á aðildarumsókn okkar Íslendinga. Ég tel að vísu að svo sé ekki, en ég er farinn að skilja betur röksemdirnar.

Hv. þingmaður beindi til mín þremur fyrirspurnum. Í fyrsta lagi spurði hún mig hvort Íslendingar styddu þær breytingar sem Norðmenn vilja gera á EES-samningnum til þess að láta hann virka betur. Frá því er þá skemmst að greina að Norðmenn hafa ekki rætt við okkur um þetta. Þessar hugmyndir eru ákaflega skammt á veg komnar og sennilega verða þær ekki framsettar og þróaðar fyrr en sú úttekt sem hv. þingmaður hefur tvisvar sinnum minnst á í dag er að fullu gerð.

Hins vegar vil ég segja það að við munum styðja allar góðar breytingar. Við erum góðir félagar innan EFTA og viljum ekki hlaupast undan merkjum í þeim efnum. Við höfum reynslu frá síðustu aldamótum varðandi óskir um breytingar á EES. Við Íslendingar stóðum sjálfir fyrir slíkum óskum og við þeim öllum var daufheyrt. Ég held að það verði mjög erfitt. Hv. þingmaður, sem sat með mér þá eða upp úr því í þingmannanefnd EFTA, man örugglega vel hver viðhorfin og viðbrögðin voru þegar slíkt var nefnt. Þá sögðu þeir ágætu herramenn sem stýra Brussel: Þið eigið bara að koma inn fyrir tjaldið.

Hv. þingmaður spurði mig líka um hvað gæti gerst vegna tíðindanna frá Noregi þar sem landsfundur Verkamannaflokksins tók fram fyrir hendurnar á forustu flokksins og ríkisstjórnarinnar og hafnaði pósttilskipuninni. Þetta er í fyrsta skipti sem svona gerist, það hefur aldrei gerst áður. En svo ég rifji upp eftir rosknu minni hvað menn sögðu þegar við vorum sjálf að samþykkja EES á sínum tíma þá var talað um að ESB gæti á móti tekið skylda eða viðeigandi flokka úr sambandi. Ég get hins vegar ekki hérna „på stående fod“ sagt henni hvað það fæli nákvæmlega í sér. Ég ímynda mér að margir erfiðir samningafundir séu (Forseti hringir.) fram undan um þetta.