139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[21:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað eigum við að gera það. Ég hef árum saman talað fyrir því, allar götur síðan skýrslan sem ég átti hlut að sem gerð var af nefnd sem Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, veitti forustu, lagt á það ríka áherslu að Alþingi eigi að koma sér upp fulltrúum eða skrifstofu við Evrópuþingið. Valdið hefur flust til innan Evrópusambandsins frá því sem var þegar við gerðum EES-samninginn, þá hafði Evrópuþingið ekkert vald, var bara ráðgefandi. Nú hefur það gríðarlega mikið vald og ég hef sagt að ég telji þingflokkana eiga að nota þau tengsl sem þeir hafa í flokkahópum sínum til að taka höndum saman ef að höndum ber eitthvert mál sem við þurfum virkilega að hafa áhrif á. Líklegt er að það mál væri þess eðlis að allir þingflokkar á Alþingi væru sammála um það og gætu … (Gripið fram í: … Schengen?)

Að því er Schengen varðar, ef hv. þingmaður á við þær breytingar sem pólitískt samkomulag náðist um í síðustu viku, þá er ég sammála þeim breytingum sem fela í sér að hægt sé að loka landamærum tímabundið þegar um er að ræða mikinn straum fólks af einhverjum tilteknum ástæðum. Ég held að ríki verði einfaldlega að hafa slík tæki í sínum höndum og sá vandi sem af því kann að steðja verður alþjóðasamfélagið að taka á með öðrum hætti. Ég tel að það eigi að vera partur af þeim tækjum sem ríki innan Schengen hafa yfir að ráða tímabundið.