139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[21:20]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við þurfum kannski ekki að tína allt til sem við gerum í ráðuneytinu í þessari skýrslu en ég hef beitt mér í málefnum samkynhneigðra í fleiri en þessum tveimur löndum, meðal annars í einu tiltölulega grónu samstarfsríki okkar þar sem samkynhneigðir hafa átt undir högg að sækja. Ég hef látið skoðanir mínar í ljós við fulltrúa erlendra ríkja þar sem samkynhneigðir hafa átt erfitt með að halda sínar Gay Pride göngur. Ég er eini utanríkisráðherrann sem tók réttindi samkynhneigðra upp á allsherjarþinginu, ég veit ekki til að nokkur hafi gert það fyrr á þann veg sem við gerðum.

Varðandi Úganda-málið er það þannig að frumvarpið féll dautt niður vegna þess að þar voru kosningar og þarf þá að endurflytja málið. En svo vill til að við eigum ágætan vin þar sem er forseti Úganda. Hann heimsótti þingið fyrir þremur árum, ef ég man rétt, þegar hann heimsótti Ísland. Það er ljóst að hann er harðlega andsnúinn þessu. Ég er svo alveg sammála því viðhorfi hv. þingmanns að það er mjög erfið siðferðisleg spurning þegar menn spyrja: Er ekki rétt að hætta þróunaraðstoð þar sem svona viðhorf koma fram? Ég er ekki reiðubúinn að kveða upp úr með það en það er allt í lagi að láta þá hótun blakta. Ég veit ekki hvort það er réttlætanlegt því slíkt kæmi niður á sárasaklausu fólki sem ekki á hlut að því máli. Allt er þetta þó spurningum undirorpið.

Ég vil líka segja hv. þingmanni að ég er harður femínisti eins og hv. þingmaður á að vita af nánu samstarfi við mig og ályktun 1325 hef ég tekið mjög að hjarta mínu. Á þessu ári eða í fyrra, í tilefni af tíu ára afmæli ályktunarinnar, sendi ég erindisbréf til allra sendiherra minna þar sem ég fól þeim sérstaklega að vinna ályktuninni brautargengi og fá fleiri ríki, sem þá féllu undir umdæmi viðkomandi sendiherra, til að staðfesta hana.