139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[21:22]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. utanríkisráðherra hafi tekið ályktun 1325 svo nærri hjarta sínu og hvet hann til að vinna að því að hún fái sem mest brautargengi. Það er hægt að gera með ýmsum hætti. Ég held t.d. að hinn alþjóðlegi jafnréttisskóli sé einn hluti af því, ég vil nefna það sem dæmi. En það þarf almenna fræðslu um innihald ályktunarinnar og um það hvernig á að nálgast hana til að hún geti orðið að veruleika. Þar er horft á konur sem gerendur í uppbyggingu samfélaga, sem hafa farið í gegnum stríð og erfiðleika, en ekki sem þolendur og viðfang sem þurfi að bjarga, heldur að konur hafi rödd í enduruppbyggingu samfélagsins.

Ég vil endurtaka fögnuð minn yfir því að hæstv. utanríkisráðherra beiti sér fyrir mannréttindum samkynhneigðra á alþjóðlegum vettvangi. Það á við um mannréttindi allra minnihlutahópa að það skiptir máli að svo háttsettir menn sem utanríkisráðherrar beiti sér fyrir réttindum slíkra hópa því að hver einasta rödd sem heyrist til stuðnings minnihlutahópum hefur sitt að segja. Hún skiptir gríðarlegu máli fyrir þá sem standa í baráttunni, sem sæta því að búa ekki við full mannréttindi. Þegar svo háttsettur maður sem hæstv. utanríkisráðherra einhvers ríkis beitir sér fyrir málstað þeirra hefur það gríðarleg áhrif og eflir baráttuþrek og það sendir mjög skýr skilaboð til stjórnvalda í hverju ríki um að alþjóðasamfélagið lýsi yfir andúð og andstöðu við mannréttindabrot.