139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[21:26]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nú tel ég mikilvægt að árétta að það er enginn ótti í brjósti mínu gagnvart stjórnarathöfnum hæstv. utanríkisráðherra þegar kemur að femínískum áherslum í utanríkisráðuneytinu. Ég vil bara brýna hæstv. ráðherra til að halda áfram á sömu braut því að ég held að eitt mikilvægasta framlag Íslands í utanríkismálum og í alþjóðasamfélaginu sé barátta fyrir mannréttindum, fyrir auknu jafnrétti kynjanna, fyrir því að konur jafnt sem karlar hafi áhrif á þróun sinna eigin ríkja og alþjóðasamfélagsins. Ég veit að hann sem og aðrir femínistar í þingflokki Samfylkingarinnar munu af einurð vinna að framgangi femínískra áherslna í utanríkisstefnu Íslands.