139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[21:29]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er einlægur Evrópusambandssinni og það hefur ekkert með evruna að gera í sjálfu sér heldur trú mína á Evrópuhugsjónina og þann grundvöll sem Evrópusambandið byggir á sem er friðarbandalag þar sem þjóðir leysa úr ágreiningi og vinna saman í stað þess að stríða hver við aðra út af hagsmunabaráttu sinni.

Hitt er annað mál að ég er sammála þeim fjölda einstaklinga á Íslandi, þar með talið mörgum einstaklingum úr atvinnulífinu, um að innganga í Evrópusambandið sé núna efnahagsleg nauðsyn, það sé ekki eingöngu hin hugmyndafræðilega sýn á Evrópusambandið sem mikilvægan samstarfsvettvang heldur sé það efnahagsleg nauðsyn.

Á þessum fyrsta áratug 21. aldarinnar fór fjármálakerfi heimsins gjörsamlega úr böndunum, þar með talið innan Evrópusambandsins og staða evrunnar er vissulega slæm þó að hún nálgist hvergi stöðu krónunnar. En á vettvangi Evrópusambandsins sem og annarra einstakra ríkja þar innan og utan fer fram endurskoðun á umgjörð fjármálakerfisins og samspili peningamála og ríkisfjármála. Þetta er bara hluti af því ferli sem er í gangi í öllum ríkjum, að minnsta kosti hins vestræna heims, þannig að eitthvert sérstakt mat á stöðu evrunnar — ég mundi ekki reyna að halda því fram að það væri (Forseti hringir.) sérlega gott ástand á evrunni en unnið er að þessum málum á vettvangi (Forseti hringir.) Evrópusambandsins.