139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[21:31]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hv. þingmaður gerði það sem fáir gera og talaði um það sem við heyrum ekki í umræðunni almennt frá þeim sem vilja að Ísland gangi í Evrópusambandið og segjast vera einlægir Evrópusambandssinnar en hún benti á hið augljósa að ákveðin hugmynd væri á bak við það, þ.e. friðarbandalagið. Grunnhugmyndin þegar stóru ríkin í gömlu Evrópu voru búin að takast þrisvar á á um 70 árum eða hvað þau voru mörg var að skynsamlegt væri að finna einhverja fleti til að sameina þau pólitískt til að koma í veg fyrir slíkan ófrið. Ég held að allir séu sammála um það.

Evrópusambandið er náttúrlega langt umfram það núna. Við höfum ekki átt í miklum ófriði við aðrar þjóðir hvort sem það er í Evrópu eða annars staðar og litlar líkur eru á því. Ég hef ekki miklar áhyggjur af því að Þjóðverjar fari inn í Frakkland eða Frakkar inn í Þýskaland. Hins vegar komumst við ekki hjá því, og ég er ekkert að biðja hv. þingmann neitt frekar að svara því varðandi evruna, að það er ekki hægt að nálgast málið með þeim hætti sem hér hefur verið gert í umræðunni eins og allt sé í himnalagi, því fer víðs fjarri. Þær greinar sem ég hef lesið og það sem ég hef kynnt mér, og ekkert af því er íslenskt vegna þess að álitsgjafahirðin á Íslandi er því miður svo upptekin af því að koma Íslandi í Evrópusambandið að menn halda alltaf söluræður í staðinn fyrir að ganga í málið, þá virðast menn almennt telja að núna þurfi að stórauka samþjöppun pólitísks og efnahagslegs valds á vettvangi Evrópusambandsins ef halda eigi áfram með evruna eins og hún er (Forseti hringir.) eða fara einhverjar allt aðrar leiðir, eins og að brjóta hana upp. (Forseti hringir.) Þetta eru ekki bara staðreyndir sem ég held fram heldur nokkuð sem allir geta lesið og kynnt sér.