139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[21:52]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég neita ekki að á köflum hef ég haft áhyggjur af evrunni. Ég held hins vegar að hún sé að komast í gegnum erfiðleikana sem hún lenti í. Get ég bent á einhverja sem eru sammála mér um það? Já, ég get t.d. bent á vini okkar Eista sem héldu á síðasta ári ótrauðir áfram aðlögun sinni að evrunni og settu engan frest á að taka hana upp. Þeir gerðu það í byrjun árs vegna þess að þeir höfðu trú á því að evran kæmist í gegnum þetta.

Ég átti töluverðar samræður við Urmas, utanríkisráðherra Eistlands, ekki einu sinni heldur mörgum sinnum, um nákvæmlega þetta. Ég er þessarar skoðunar ekki síst vegna samtala við hann. En eins og ég sagði áðan er ég kannski ekki sérlega spámannlega vaxinn sem efnahagsspekúlant og mín sérfræði liggur í öðru eins og hv. þingmaður veit.

Eins og hv. þingmaður segir hefur Evrópusambandið gripið til ýmiss konar ráða og hefur stóraukið eftirlit með efnahagsmálum og ríkisfjármálum evruríkjanna. Það er nauðsynlegt og jákvætt aðhald að utan. Ekki hefði verið slæmt fyrir Ísland að vera beitt slíkum aga á sínum tíma.

Hv. þingmaður vísar til The Economist og fleiri góðra blaða. Ég get ekki staðist þá freistingu að rifja upp að það voru einmitt þessi blöð sem skrifuðu um efnahagsundrið á Íslandi, það voru keynesistarnir, þessir miklu spekúlantar sem hv. þingmaður vísaði til. Rétt er að ESB hefur sett á fót sérstaka fjárlagaráðstefnu þar sem aðildarríkin leggja fram til kynningar drög að fjárlögum sínum fyrir næsta ár. Þar hjálpast evruríkin að því að virða reglurnar. Lögfest hefur verið stofnun sérstaks bjargráðasjóðs eða björgunarsjóðs sem tekur til starfa 2013 með framlagi frá AGS og ESB og hann er þá til staðar ef í harðbakkann slær.

Ég vil klykkja út með því að segja að ég tel að ef Ísland hefði verið (Forseti hringir.) aðili að myntbandalaginu hefði ekki orðið tvíburakreppa hér, hér hefði ekki orðið gjaldeyriskreppa. Ég held líka að afleiðingarnar fyrir bankana hefðu ekki orðið jafnslæmar og raunin var.