139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[21:58]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það var vont að heyra þessa samlíkingu við Austur-Þýskaland, manni sveið að heyra hana af því að svo mikið er til í henni. Ég hugsaði nú fyrst: Enginn bannar manni að koma með erlend tímarit en þá mundi ég eftir nýjustu reglunum hjá hæstv. ríkisstjórn um hvernig eigi að stoppa það að Íslendingar fái gjaldeyri nema algjörlega öruggt sé að þeir ætli að nýta hann í útlöndum. Eins og lögmaðurinn Jón Magnússon benti á er hægt að fá leyfi til húsleitar ef menn skila ekki gjaldeyrinum sem þeir notuðu ekki í útlöndum. Maður bíður bara eftir því að útfyllt verði sérstakt form um að útgjöld fyrir erlendum tímaritum verði ekki viðurkennd en eins og við vitum er njósnað um okkur ef við kaupum erlend tímarit, í Seðlabankanum er fólk sem gat fylgst með því þegar ég keypti þessi tímarit af því að ég var bara ósvífinn og gerði það með kreditkorti.

Þarna komum við að vandanum í íslensku þjóðfélagi, það er hjarðhegðunin. Innan akademíunnar er gríðarleg hjarðhegðun, þar eru flestir eins. Ef við alhæfum þá vinna þeir í akademíunni fyrir ríkisstjórnina. Þess á milli koma þeir í viðtöl í fjölmiðlunum hjá fólki sem þeir hafa kennt og svara því hvað þeim finnst um ríkisstjórnina. Allt er þetta fólk afskaplega fylgjandi því að við göngum í Evrópusambandið. Með fullri virðingu fyrir hæstv. ráðherra, og ég vil nota tækifærið ef ég hef ekki gert það nógu oft og hrósa honum fyrir þátttökuna og svörin, þá held ég að við getum verið sammála um að hann hafi oft farið betur yfir mál en þetta stóra mál í andsvari sínu, svo ekki sé dýpra í árinni tekið.

Eg held að við getum líka verið sammála um að ef við værum ekki svo heppin (Forseti hringir.) að fá erlend tímarit, þó að ríkisstjórnin njósni um það þegar við kaupum þau, mundi ég halda að evran væri hinn (Forseti hringir.) fullkomni gjaldmiðill og það væri ekkert að.