139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[22:16]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Nú er nokkuð farið að líða á þessa umræðu. Eins og venja er hefur hún farið nokkuð út um víðan völl eða vítt og breitt yfir hið breiða svið sem skýrsla hæstv. utanríkisráðherra tekur til. En eðli málsins samkvæmt hefur meginumræðan í dag snúist um Evrópumálin og stöðu aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu, sem er eðlilegt vegna þess að þar kann að vera um að ræða stærstu breytingu sem orðið hefur á tengslum Íslands við önnur ríki, a.m.k. um langt árabil. Er þó jafnframt rétt að hafa í huga að aðild að Evrópusambandinu er eðlisólík því samstarfi sem við höfum þegar tekið þátt í, enda er gert ráð fyrir miklu víðtækara framsali valdheimilda til alþjóðlegrar eða yfirþjóðlegrar stofnunar en nokkur fordæmi eru fyrir varðandi samstarf okkar við önnur ríki á grundvelli annarra alþjóðastofnana.

Þarna er því grundvallarmunur á og eðlilegt að þessi mál fái meiri umræðu en önnur þó að vissulega séu fleiri þættir í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra sem gætu gefið tilefni til ítarlegrar umræðu. Eins og ýmsir hv. þingmenn hafa haft á orði kann að vera nauðsynlegt fyrir okkur í þinginu að taka sérstaka umræðu um Evrópumálin, Evrópusambandsaðildina, þá í formi skýrslugjafar af hálfu ráðherra og umræðu í kjölfar hennar, bæði til að umræða um þau mál geti átt sér stað á eðlilegan hátt en um leið að tími og tækifæri séu til þess að ræða um ýmsa aðra þætti utanríkisstefnunnar því að vissulega eru tilefni til þess. Ég verð t.d. á þeim stutta tíma sem ég hef hér til umráða að takmarka mig við Evrópumálin og sleppa ýmsum atriðum sem ég gæti haft ástæðu til að fjalla um á öðrum sviðum utanríkismála. Ég treysti því að við fáum tækifæri t.d. til að ræða um öryggismálin og skyld mál í tengslum við umræður um þjóðaröryggisstefnu sem nú er til meðferðar í utanríkismálanefnd en kemur aftur inn í þingið.

Varðandi Evrópumálin, til að gera langa sögu stutta, erum við stödd í aðlögunarferli sem lagt var upp með fyrir tæpum tveimur árum. Staðan á því máli er sú, eins og ég les skýrslu hæstv. utanríkisráðherra og eins og ég skil aðrar þær upplýsingar sem komið hafa fram um stöðu þeirra mála, að nú um þessar mundir eða hugsanlega á næstu mánuðum munum við Íslendingar standa frammi fyrir vissum tímamótum í þeim viðræðum, tímamótum sem felast í því að ákveðnu undirbúningsferli, rýnivinnu og skyldri vinnu er þá lokið og eiginlegar samningaviðræður, sérstaklega um þá þætti sem líklegastir eru til þess að valda ágreiningi, eru að hefjast. Eins og ég les þetta erum við því núna í sumar og haust á ákveðnum tímamótum í þessum viðræðum.

Hvað segir það okkur? Það segir okkur að við þurfum að meta stöðuna upp á nýtt. Við þurfum að meta stöðuna út frá þeim upplýsingum sem eru komnar fram og við þurfum kannski, íslensk stjórnvöld og þingið, að velta fyrir okkur hverjar eru þær mikilvægustu áherslur sem við viljum hafa í samningaviðræðum um hina viðkvæmustu þætti aðildar- eða aðlögunarferlisins.

Við munum að í nefndaráliti utanríkismálanefndar, sem með vissum hætti var grundvöllurinn að niðurstöðu meiri hluta þingsins sumarið 2009, er að finna ákveðnar áherslur. Þar var hins vegar ekki um að ræða skýrt mótuð samningsmarkmið eða skýr samningsafstaða, ekki eins og ég skildi það. Ég skil stöðuna svo að samningahópar og samninganefnd Íslands vinni nú að mótun samningsafstöðu eða samningsmarkmiða á sviðum hinna mismunandi kafla væntanlegs eða tilvonandi aðildarsamnings. Og þá finnst mér liggja beint við eins og ég kom inn á í andsvörum fyrr í kvöld að við veltum fyrir okkur: Hver á aðkoma Alþingis að vera að mótun samningsafstöðu, samningsmarkmiða?

Rætt hefur verið um að sú samningsafstaða eða samningsmarkmið sem mótuð verða af hálfu samninganefndar og þá væntanlega ráðherranefndar um Evrópumál verði kynnt utanríkismálanefnd Alþingis, en ég lýsti því í umræðu fyrr í dag að ég teldi að slíkt væri ófullnægjandi. Samráð framkvæmdarvaldsins við Alþingi þyrfti og ætti að vera meira en felst í því. Ég vísaði líka til þess að í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar frá sínum tíma er í stuttu máli getið um fyrirkomulag þeirra hluta í nokkrum löndum sem sótt hafa um aðild að Evrópusambandinu. Þar kemur m.a. fram, ef ég man rétt, að t.d. í Króatíu er samningsafstaða eða samningsmarkmið í hverjum kafla fyrir sig borið undir þingnefnd á viðkomandi málefnasviði og tekið þar til umræðu áður en það er kynnt Evrópusambandinu.

Það teldi ég að væri mikilvæg leið til að auka aðkomu þingsins að ferlinu og í góðu samræmi við þau fögru orð sem uppi hafa verið höfð um náið samráð við þingið, samráð sem hefur að því er manni skilst vissulega verið við utanríkismálanefnd en hugsanlega ekki aðrar nefndir þingsins, mér er reyndar kunnugt um að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hefur af og til átt fundi með ráðherra og fulltrúum utanríkisráðuneytisins og samninganefndar, en ég teldi að útvíkka þyrfti það. Ég tel að það sé mikilvægt áður en samningsmarkmið eru kynnt Evrópusambandinu að þau fái umfjöllun, góða umfjöllun í þinginu, umfjöllun sem er ekki eingöngu fólgin í einhliða kynningu af hálfu samninganefndar eða ráðuneytis á því sem ákveðið hefur verið að senda Evrópusambandinu, heldur að um raunverulegt samráð verði að ræða þar sem þingið getur haft áhrif á það hver samningsafstaða eða samningsmarkmið eiga að vera.

Ég tel að þetta sé gríðarlega mikilvægt og raunar hygg ég að þarna séum við kannski komin að þeim þætti í ferlinu, þeim tímapunkti sem skiptir hvað mestu máli varðandi framhaldið. Ég held að hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. ríkisstjórn eigi auðvitað að fagna því að fá tækifæri til þess að bera stöðu sína undir þingið vegna þess að eins og komið hefur fram í umræðunni hefur ríkisstjórnin fram til þessa haft heldur óljósan eða a.m.k. veikan stuðning við samningaferlið hér í þinginu. Við munum hvernig atkvæðagreiðslan fór í þinginu á sínum tíma og við vitum og höfum heyrt margítrekaðar yfirlýsingar af hálfu þingmanna og jafnvel ráðherra úr hópi annars stjórnarflokksins, að þeir hafi í raun og veru greitt atkvæði gegn samvisku sinni hér í umræðu, (Gripið fram í.) að þeir hafi í rauninni greitt atkvæði með umsókn þó að þeir hafi verið á móti henni. Stuðningurinn hefur því verið afar veikur og það mundi óneitanlega (Forseti hringir.) styrkja ríkisstjórnina og samninganefndina ef hún leitaði eftir sem víðtækustu samráði við þingið um mótun samningsafstöðu eða samningsmarkmiða.