139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[22:41]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir innleggið í þessa umræðu.

Hv. þingmaður ræddi um að framhaldið á aðildarviðræðunum yrði það að reyna að loka ákveðnum erfiðum köflum. Í framhaldi af því að hæstv. utanríkisráðherra nefndi það hér í dag að einn af erfiðustu köflunum, ef ekki sá erfiðasti, væri kaflinn um sjávarútvegsmál langar mig að spyrja hv. þingmann hvort ekki hefði verið miklu fljótlegra, skynsamlegra og ódýrara að senda bara eina spurningu. Sú spurning er ósköp einföld hvað varðar sjávarútvegskaflann: Er Evrópusambandið reiðubúið að tryggja Íslendingum varanleg yfirráð yfir fiskveiðilögsögu sinni og endanlega stjórn innan hennar?

Ef þessi yfirráð yfir fiskimiðunum væru ekki fullkomlega tryggð er morgunljóst að aðild að Evrópusambandinu yrði kolfelld í þjóðaratkvæðagreiðslu, hvert svo sem annað innihald samningsins yrði.