139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[22:46]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vissulega er það stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og hefur verið frá upphafi að standa utan hernaðarbandalaga og sú stefna stendur. Við erum á móti því að vera í hernaðarbandalagi. Því miður erum við ekki ein í meiri hluta á Alþingi þannig að við hefðum getað tekið þá ákvörðun og haft til þess nægan þingstyrk.

Við erum líka á móti því að ganga í Evrópusambandið en við höfum undirgengist það að fara þessa leið og ég tel að það eigi við um fleiri flokka.

Hvað varðar innrásina í Líbíu og innrásina í Írak þá harma ég þær báðar. En hitt er svo annað mál, það er eðlismunur á því hvort það eru tveir einstaklingar sem bræða með sér að setja okkur á lista hinna viljugu þjóða eða hvort það er hjáseta vegna Líbíu en ég fordæmi hvort tveggja. (Gripið fram í.) Fyrirgefið, ekki hjáseta — það var stuðningur, (Forseti hringir.) en ég fordæmi hvort tveggja. Ef ástæða væri til að rannsaka það mundi ég styðja það.