139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[22:50]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér var hv. þm. Þuríður Backman í rauninni að segja: Við fordæmum aðgerðir sem við berum þó ábyrgð á. (ÞBack: Já.) Það er dálítið flókið. (Gripið fram í.) Ég held að hv. þingmaður þurfi að velta því aðeins fyrir sér í þessu sambandi hvað felist í því að taka þátt í ríkisstjórn. Hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð einhvers konar aukaaðild að ríkisstjórn Íslands? Skiptir það engu máli fyrir kjósendur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hvort sá flokkur lendir í ríkisstjórn eða ekki þegar kemur að mörkun utanríkisstefnu í landinu? Það er dálítið athyglisvert.

Að öðru, ég ætlaði að nefna þá þætti í örstuttu máli sem hv. þingmaður nefndi varðandi Schengen. Ég held að hún hafi lýst ágætlega vandamálum í því sambandi. Ég vildi bara skjóta því að að lykillinn að því að koma í veg fyrir skipulagða glæpastarfsemi og aðrar hörmungar sem geta fylgt óheftu (Forseti hringir.) flæði fólks milli svæða felst í upplýsingum. Við þurfum að tryggja hvernig við höfum aðgang að upplýsingum. Í dag er Schengen mikilvægt í því sambandi.