139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[22:55]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Í ræðu minni hér áðan, í fyrri ræðu, náði ég ekki að fara yfir nema lítinn hluta af því sem ég ætlaði að segja um skýrslu hæstv. utanríkisráðherra. Mér sýnist að ég muni ekki ná að klára þá yfirferð hér, sérstaklega vegna þess að eitt og annað hefur komið fram í umræðunni í millitíðinni sem ég tel ástæðu til að bregðast við. Sérstaklega hafa menn vakið athygli á því hversu lítið er fjallað um, bæði í þessari skýrslu og almennt í umræðu í samfélaginu, vandann sem Evrópusambandið stendur frammi fyrir núna, efnahagsvandann á evrusvæðinu, og þær breytingar sem eru líklegar til að verða í tengslum við það. Þær grundvallarbreytingar á Evrópusambandinu hljóta að hafa áhrif á afstöðu okkar til aðildar og aðildarumsóknarinnar.

Hæstv. utanríkisráðherra reyndi raunar að gera tiltölulega lítið úr þeim vanda og talaði um að viðsnúningur væri að verða og gera mætti ráð fyrir 2,5% hagvexti á evrusvæðinu. Vandinn er bara sá að þessi hagvöxtur er eiginlega allur í Þýskalandi á meðan önnur ríki eru að dragast enn meira aftur úr. Í því liggur vandi evrunnar og evrusvæðisins að hagsmunir þeirra ríkja sem notast við evruna eru svo ólíkir að erfitt er að hafa efnahagsstefnu sem hentar þeim öllum. Ef menn ganga enn lengra en nú í því að innleiða eina efnahagsstefnu, jafnvel ein fjárlög fyrir allt Evrópusambandið, gerir það vanda hinna minni ríkja enn meiri en nú er.

Svo er annað sem á alveg eftir að fara yfir hér, og það tengist reyndar vanda evrunnar, en það eru þau miklu viðskipti sem hafa átt sér stað með skuldabréf evrópskra ríkja og banka innan þeirra, bæði með aðkomu sérstaks sjóðs á vegum Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en einnig af hálfu Evrópska seðlabankans. Þessir aðilar, þessar þrjár stofnanir, hafa í raun verið að halda uppi verði skuldabréfa evruríkjanna og evrubankanna. Þær aðferðir sem eru notaðar í þessu og ástarbréfin svokölluðu, sem nú streyma inn í Evrópska seðlabankann, eru um margt lík þeim vanda sem var hér á Íslandi í aðdraganda efnahagshrunsins. Nú er reyndar verið að tala um að íslensku bankarnir hafi stundað stórfellda markaðsmisnotkun, eins og það er kallað, með því að eiga viðskipti fram og til baka með hlutabréf og skuldabréf í bönkunum að miklu leyti á sama hátt og Evrópusambandslöndin og þessar stofnanir eru að gera núna til að halda uppi verðmæti þessara bréfa.

Hæstv. utanríkisráðherra lýsti því svo yfir að takmörkuð hætta væri á því að þessi vandi breiddist enn frekar út, þ.e. næði til Spánar, vegna þess að Kínverjar væru að kaupa upp skuldabréf á það ríki. Það reyndist reyndar ekki alls kostar rétt, þær yfirlýsingar sem höfðu komið frá aðilum í ríkisstjórn Spánar um það, og varð hið vandræðalegasta mál í spænskum stjórnmálum, vegna þess að það kom á daginn að Kínverjar ætluðu ekki að kaupa þau bréf sem haldið hafði verið fram. Engu að síður hafa Kínverjar verið tiltölulega duglegir við að kaupa evrópsk skuldabréf og eru með því að styrkja verulega pólitíska stöðu sína á kostnað Evrópuríkjanna, Evrópusambandsins. Þetta er ein af birtingarmyndum þeirrar stóru þróunar sem er að eiga sér stað í því að staða Evrópuríkjanna, Evrópusambandsins, í heiminum er stöðugt að veikjast. Evrópa er á margan hátt komin á hnignunarskeið sögulega séð. Það er ein af þeim spurningum sem við þurfum að svara hvort við viljum fara inn í þetta apparat nú þegar það er komið á þetta sögulega hnignunarskeið sitt og hin ýmsu vandamál sem erfitt er að sjá fram úr hvernig menn ætla að leysa, eða hvort við viljum vera opin fyrir því að eiga viðskipti við hin rísandi veldi og þau lönd sem verða stærstu kaupendur alls konar varnings, meðal annars þeirra hluta sem við framleiðum á Íslandi.

Nú sé ég, hæstv. forseti, að tími minn er aftur liðinn og ég er rétt að komast af stað í seinni hluta yfirferðarinnar. Ef þess er einhver kostur mundi ég gjarnan vilja láta setja mig aftur á mælendaskrá en annars munu fjölmörg mál sem fjallað er um í umræddri skýrslu liggja (Forseti hringir.) óbætt hjá garði enn um sinn en vonandi gefst tækifæri til þess síðar að fara nánar yfir þau.