139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[23:02]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég gerði þetta mál reyndar að umtalsefni í fyrri ræðu minni hér í dag en þetta er vissulega áhugavert mál og þörf umræða vegna þess að, eins og hv. þingmaður bendir á, ófáir þingmenn hafa haldið því fram að þeir ætluðu sér að greiða atkvæði samkvæmt niðurstöðu hinnar svokölluðu ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu eða könnunar sem við getum kallað, með stóru úrtaki.

Eins og hv. þingmaður bendir á kemur þetta illa heim og saman við stjórnarskrána þar sem beinlínis er mælt fyrir um að menn eigi ekki að taka við leiðbeiningum frá kjósendum um hvernig þeir greiði atkvæði á Alþingi. Þá fara menn í eins konar orðaleik og segja að það sé sannfæring þeirra að fylgja eigi afstöðu meiri hluta kjósenda, það sé sem sé pólitísk sannfæring þeirra að þingmenn eigi að greiða atkvæði í samræmi við vilja meiri hluta þjóðarinnar.

En þetta er alveg nýtt vegna þess að þessir sömu þingmenn hafa ekki fylgt þeirri reglu til þessa. Þeir hafa ekki, í afstöðu sinni til mála, leitast við að fylgja þeirri afstöðu sem er afstaða meiri hluta þjóðarinnar á hverjum tíma, Icesave-málið er besta dæmið um það. Það er því svolítið sérkennilegt að segjast ætla að gera þetta einhvern tíma í framtíðinni vegna þess að það sé sannfæring þeirra og hafa þó ekki fylgt þeirri sannfæringu fram til þessa. Fyrir vikið, eins og ég kom inn á í fyrri ræðu minni, er það áhyggjuefni að þjóðin, almenningur, skuli ekki fá síðasta orðið um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu. Eins og staðan er núna mun eingöngu fara fram ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla en svo kemur til kasta þingmanna með síðasta orðið. Þá eiga þeir samkvæmt stjórnarskránni að fylgja sannfæringu sinni í afstöðu til málsins.