139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[23:06]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég get tekið undir þetta mat hv. þingmanns. Það þyrfti að breyta stjórnarskránni til að hægt væri að halda því fram að þjóðin geti átt síðasta orðið í þessu máli nema auðvitað að þingið greiði um þetta atkvæði og forsetinn neiti að skrifa undir og vísi því til þjóðarinnar, þá mætti segja að hún hefði síðasta orðið um aðild að Evrópusambandinu. Og kannski ekkert ólíklegt að sú geti orðið raunin ef illa fer í atkvæðagreiðslu á þinginu.

Hins vegar var spurt hvort hægt væri að halda því fram að menn hefðu þá sannfæringu að þeir ættu að greiða atkvæði um mál í samræmi við vilja meiri hluta þjóðarinnar. Það er alveg skýrt í stjórnarskránni að verið er að vísa til þess að menn eigi að taka afstöðu til þess máls sem kemur til atkvæða í þinginu hverju sinni. Hnykkt er á því með því að segja, eins og hv. þingmaður benti á áðan, að ekki eigi að taka afstöðu eftir því hverja menn telji afstöðu kjósenda vera — ég man ekki almennilega orðalagið — heldur afstöðu viðkomandi þingmanns til málsins. Málið sem kæmi til atkvæða í þinginu væri þá: Já eða nei, viltu ganga í Evrópusambandið? Þingmaðurinn þarf þá að spyrja sjálfan sig: Vil ég ganga í Evrópusambandið? Ekki neitt annað.

Þegar ég fór að velta þessu fyrir mér áðan, í framhaldi af hinum sérkennilegu skýringum sem komu frá nokkrum þingmönnum, hvort þingmaður gæti sagt — t.d. ef afgerandi meiri hluti í þjóðaratkvæðagreiðslu segði: Já, göngum í Evrópusambandið — að afstaða hans hefði breyst vegna þess að hann hefði orðið fyrir nokkurs konar hópþrýstingi og hópþrýstingurinn hefði orðið til þess að hann hefði misst trúna á eigin afstöðu og (Forseti hringir.) afstaða hans breyst af þeim sökum. Það er svolítið (Forseti hringir.) hæpið að halda þessu fram, þetta er eiginlega, held ég, einu skrefi of langt en ég ætla að velta þessu fyrir mér áfram.