139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[23:28]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Á liðnum áratug hefur geisað blóðugt stríð í Afríkuríkinu Kongó. Þar hafa um 5,5 milljónir manna látið lífið, fjöldi annarra eru örkumlaðir fyrir lífstíð eða á flótta. Hópnauðganir á konum og stúlkum voru og eru enn órofa hluti af daglegum veruleika í austurhluta landsins og kynferðisofbeldi er hvergi jafnhrottafengið og algengt. Kongó er völlur viðamesta blóðbaðs frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Úttekt á átökunum á vegum Sameinuðu þjóðanna leiddi í ljós að hersveitir málaliða á vegum vestrænna fjölþjóðafyrirtækja voru fyrst og fremst að skjóta skildi fyrir rán á náttúruauðlindum landsins. Þar kemur m.a. við sögu málmblandan coltan en úr henni eru unnir málmar sem eru til að mynda notaðir í farsíma, DVD-spilara, tölvur og vídeó.

Ég nefni þetta til að reyna að setja hlutina í ákveðið samhengi. Ég nefni þetta til að vekja athygli á morðsveitum auðhringja um veröldina og sölumönnum hergagnaiðnaðarins sem nærast á stríði, neyslugræðginni sem er blind á þjáningar í fjarlægum löndum. Kongó er ekki síst vígvöllur blóðbaðs vegna hinna gríðarlegu náttúruauðlinda sem landið býr yfir og í því kapphlaupi skiptir líf óbreyttra borgara nákvæmlega engu máli.

Sádi-Arabía og Bandaríkin hafa nýverið gert með sér stærsta hergagnasamning í sögu Bandaríkjanna. Í Sádi-Arabíu ríkir harðsvíruð einræðisstjórn og í Barein eru mótmælendur drepnir með sömu vopnum og eru keypt frá ríkjunum sem nú segjast vera að frelsa og vernda borgara í Líbíu. Í Pakistan hefur verið haldið uppi hernaði með ómönnuðum árásarflugvélum undir því yfirskini að kljást við al Kaída. Útkoman er dráp óbreyttra borgara í hlutföllunum 50:1, fimmtíu óbreyttir borgarar á móti einum meintum al Kaída-liða.

Spurningin sem ég er að koma að er einföld. Hvers vegna eru gerðar loftárásir á Líbíu? Það fær mig enginn til að trúa því að það sé gert af mannúðarástæðum til að vernda óbreytta borgara af þeim sömu ríkjum og standa fyrir martröðinni í Írak. Það reyndist þessum sömu ríkjum ekkert sérstakt áhugamál að stemma stigu við eigin græðgi í Kongó. Það reyndist vesturveldunum um megn að setja fjölþjóðafyrirtækjum skorður í því blóðbaði. En nú skal haldið til Líbíu í nafni mannúðar. Sagan endurtekur sig er sagt og eins og stundum áður lyktar meint mannúð af olíu.

Ég vil hafa sagt það, virðulegi forseti, úr þessum ræðustól að ég fordæmi loftárásirnar á Líbíu harðlega og mér þykja þær með öllu óforsvaranlegar. Sjaldan hefur verið lagt út í herleiðangur síðustu áratugina á jafnóljósum og þokukenndum forsendum. Ég ítreka enn og aftur þá skýru stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að Ísland sé utan hernaðarbandalaga og standi utan hernaðarbrölts. Því miður erum við vinstri græn afar einmana í þeirri afstöðu okkar hér á þingi en ég hvet þingheim til að hugsa hlutina upp á nýtt og koma með okkur í friðarbaráttuna.

Alþjóðastjórnmál eru og verða vígvöllur eitursterkra eiginhagsmuna og kapphlaups þar sem máttur hins sterka ræður gjarnan ríkum. Hinn sterki er ekki endilega alltaf fullvalda ríki heldur getur hann einnig birst okkur í formi ægivalds fjölþjóðlegra fyrirtækja og stofnana. Það er sorglegt ef við missum tengslin við rætur okkar sem vopnlaus og friðsöm þjóð. Það er skylda okkar að vera sjálfstæð rödd mannúðar og friðar.

Kapphlaupið um auðlindirnar og hervæðingin í kringum þær teygir ekki bara arma sína til Afríku eða arabaheimsins, nú er kapphlaupið einnig komið á fullt í hinum strjálbýlu og ísilögðu norðurslóðum. Þar bíða menn spenntir eftir enn þá meiri olíu. Það er staðreynd að kapphlaupið um auðlindir norðursins er byrjað og gæti endað með ósköpum ef ekki er rétt á málum haldið. Þar hefur Ísland hlutverki að gegna, ekki bara í sterkri hagsmunagæslu fyrir Ísland sem slíkt heldur í að vakta og vernda norðrið, m.a. frá hervæðingu, mengun, olíuslysum, ágengni af hvers konar tagi og vitfirrtu kapphlaupi um olíu og gas.

Ég fanga því sérstaklega að málefnum norðurslóða sé gert jafnhátt undir höfði og raun ber vitni í skýrslu og málflutningi hæstv. utanríkisráðherra og get tekið undir margt af því sem þar er sagt. Ég tel mikilvægt fyrir framtíð norðurslóða að styrkja Norðurskautsráðið eins og utanríkisráðherra hefur lagt áherslu á. Okkur ber skylda til að tryggja hrein og ómenguð höf og lýsa yfir skýlausri baráttu gegn loftslagsvánni og berjast fyrir sjálfbærri þróun og umhverfisvernd til framtíðar bæði heima og heiman.

Kaldhæðni örlaganna er sú að taumlaus neysla og græðgi í auðlindir er úrslitavaldur hinna hröðu loftslagsbreytinga sem nútíminn stendur frammi fyrir. Nú á að nota afleiðingar loftslagsbreytinga og hugsanlega opnun siglingaleiða til að ná í enn meiri olíu og halda kapphlaupinu áfram, sem aftur mun þá geta af sér enn hraðari loftslagsbreytingar ef ekkert er að gert. Þetta er vítahringur kapphlaupsins.

Það vill oft gleymast, virðulegi forseti, því að við erum eðlilega svo upptekin við fjármálakreppuna dag frá degi að stærsta og mest aðkallandi vá sem við mannkynið stöndum frammi fyrir eru loftslagsbreytingar, breytingar sem munu bitna harðast og verst á þeim fátækustu og verst stöddu og hafa óafturkræf áhrif á jörð okkar og lífríki. Við getum ekki leyft okkur að láta eins og við eigum fjórar eða fimm plánetur. Best er að sjálfsögðu að taka til í eigin ranni og vera leiðandi í verki. Ég fagna því að ríkisstjórnin vill einmitt vera leiðandi í þeim efnum.

Orð skipta líka máli og hvaða rödd heyrist frá Íslandi á alþjóðlegum vettvangi í þessum efnum. Ísland er lítið og flestir þeirra sem búa á þessari jörð hafa aldrei heyrt þess getið. Þá er eðlilegt að spyrja: Getum við nokkuð gert í reynd? Getum við yfir höfuð nokkur áhrif haft önnur en að gæta eigin hagsmuna? Getum við gefið eitthvað? Ef það er dapurlegt að Ísland sé nú aftur aðili að hernaðarvegferð vesturvelda í arabaheimi, að Ísland sé nú aðili að þremur stríðum, hvað er þá tilefni til gleði og stolts þegar kemur að rödd Íslands á alþjóðavettvangi?

Hér fyrr í dag var sérstaklega nefndur hugsanlegur dauðadómur yfir mönnum í Úganda vegna samkynhneigðar. Þingmálið sem um ræðir hefur ekki verið samþykkt í Úganda en það gæti þó enn vofað yfir. Getur Ísland eitt og sér komið í veg fyrir slík viðurstyggileg mannréttindabrot? Nei, það getum við Íslendingar ekki, en við getum talað skýrri röddu. Það skiptir máli og ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að hafa talað jafnskýrt í þeim efnum og raun ber vitni. Við getum talað skýrri röddu fyrir kvenfrelsi og jafnrétti kynjanna sem er eitt brýnasta mannréttindamálið á heimsvísu. Þar höfum við einnig ýmislegt að gefa af reynslu okkar, jafnvel þótt við þurfum sjálf að taka þar á mörgu.

Rödd sem heyrist í þágu mannréttinda, hversu mjóróma og veikburða sam hún er, rödd sem hreyfir við málum sem aðrir þora ekki að nefna á nafn skiptir máli. Það er nefnilega svo að ef maður er fórnarlamb, hvar sem er í veröldinni, er maður ævinlega þakklátur fyrir lítið hvísl sem segir: Við vitum af þjáningu þinni, við stöndum með þér. Þú hefur orðið fyrir rangindum, við heyrum það og sjáum. Þegar aðrir viðurkenna þjáningar þeirra sem þjást er það huggun í brjóstum mannanna. Það gerir hins vegar áþján og sársauka fórnarlambs enn verri og þungbærari ef því er ekki komið til varnar eða ef allir líta undan og láta eins það skipti ekki máli. Fórnarlömbin eru um allan heim, konur, börn, samkynhneigðir og ýmsir minnihlutahópar, og fyrir þau getum við verið rödd frjálslyndis. Við höfum ýmislegt að gefa.

Í hinu stóra samhengi, frú forseti, fagna ég líka áherslum á áframhaldandi uppbyggingu í þróunarsamvinnu. Þótt herði að hér á okkar litla landi tel ég afar mikilvægt að við sýnum þá reisn að skerða ekki skuld okkar til hinna verst settu í heiminum heldur sýnum stórhug í kreppunni og leggjum enn frekari metnað í að styðja þá sem þrátt fyrir allt hafa það svo miklu verra en við.

Evrópusambandið hefur verið mjög til umræðu í dag og ég hef ekki tíma til að fara í langa umræðu um það, enda held ég að mín afstaða í þeim efnum liggi ljós fyrir og hef ég ítrekað á ýmsum vettvangi greint frá henni. (Forseti hringir.) Hér hafa verið bornar upp hugmyndir um að hæstv. utanríkisráðherra gefi sérstaka skýrslu um Evrópumálin og um hana verði sérstök umræða. Ég held að það sé mjög vel til fundið því að þetta er það stórt mál og (Forseti hringir.) svið utanríkismála svo vítt að það væri vel að fara yfir það.

Að lokum endurtek ég þakkir til hæstv. utanríkisráðherra fyrir yfirgripsmikla skýrslu og brýni hann og ráðuneyti hans í (Forseti hringir.) að tvinna saman öflugan málflutning í mannréttindamálum (Forseti hringir.) og umhverfismálum, fyrir jafnrétti og sjálfbærni hér heima og á heimsvísu. Ég læt máli mínu lokið, (Forseti hringir.) frú forseti, þótt ég hafi enn margt að segja.