139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[23:39]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur fyrir ræðu hennar. Eins og gengur getur maður tekið undir margt í ræðunni, annað kannski síður. Ræðan var engu að síður ágæt og ágætisbrýning til okkar um mikilvægi þess að vera vakandi, ekki síst á sviði mannréttindamála.

Það vakti ekki síst nokkra umhugsun þegar hv. þingmaður vék að Líbíu og aðkomu Íslands að átökunum sem þar eiga sér stað um þessar mundir. Þá velti ég fyrir mér hvort það sé svo að Vinstri hreyfingin – grænt framboð sætti sig einfaldlega við að þegar kemur að meginákvörðunum á sviði utanríkismála hafi hún ekki áhrif. Nú kjósa margir einmitt Vinstri hreyfinguna – grænt framboð vegna afstöðu og sérstöðu flokksins á sviði utanríkismála. En eru skilaboð þingmanna Vinstri grænna til kjósenda: „Kjósið okkur, við munum tala eins og þið viljið en þegar kemur að ákvörðununum eru það aðrir sem ráða, jafnvel þó að við séum í ríkisstjórn“?