139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[23:45]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyrði á hv. þingmanni að hún ætti ýmislegt eftir ósagt og ég ætla því að gefa henni tækifæri til að ræða Líbíu aðeins frekar.

Það var algerlega skýrt hver afstaða þingmannsins er, hún fordæmdi aðgerðir Atlantshafsbandalagsins í Líbíu harðlega. Hún fordæmdi þá ákvörðun sem hennar eigin ríkisstjórn tók. Það hefur komið hér fram að hæstv. utanríkisráðherra taldi sig hafa fullt umboð. Það hefur líka komið fram bæði hjá hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. menntamálaráðherra og eins hjá hæstv. innanríkisráðherra að þetta hafi ekki verið rætt við ráðherra Vinstri grænna og ekki verið rætt í ríkisstjórn. Mér heyrðist samt á hæstv. utanríkisráðherra fyrr í umræðunni í dag að það hefði kannski verið hyggilegra að gera slíkt. Hv. þingmaður talaði líka um rödd Íslands, hve mikilvægt væri að hún heyrðist þótt lítil væri, þótt við værum ekki fjölmennasta þjóðin væri mikilvægt að rödd okkar heyrðist. Því vil ég spyrja hv. þingmann: Er ekki blóðugt að horfa upp á að það tækifæri sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafði, einstakt tækifæri sem stjórnmálaflokkur hafði til að koma rödd sinni á framfæri, hafi verið tekið frá þeim?

Í Norður-Atlantshafsráðinu virka hlutirnir nefnilega þannig að hvert einstakt ríki hefur neitunarvald. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefði getað sagt, ef hún hefði verið spurð: Nei, takk, við viljum þetta ekki. Og þannig komið stefnu sinni ekki bara á kortið, heldur hreinlega komið í veg fyrir að ákvörðunin hefði verið tekin. Hvað finnst hv. þingmanni um framferði samstarfsflokksins að hafa slíkt tækifæri (Forseti hringir.) af Vinstri hreyfingunni – grænu framboði?