139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[23:49]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef vissa samúð með hv. þingmanni vegna þess að ég veit að hún talar af fyllstu einlægni um þetta mál og þetta er sannarlega hennar skoðun. Samt verð ég að fá að ítreka að þó að einmanaleiki Vinstri grænna hér á Alþingi sé kannski mikill þegar kemur að Atlantshafsbandalaginu skulum við ekki gleyma því að Vinstri hreyfingin – grænt framboð á fimm ráðherra í tíu manna ríkisstjórn og þetta eru tveir flokkar svo maður hefði ætlað að einmanaleikinn ætti ekki að vera svo mikill þar þegar kemur að máli sem nær greinilega alveg inn að hjartarótum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

En um annan einmanaleika sem hv. þingmaður talaði um, varðandi Evrópusambandið, þá get ég glatt hv. þingmann með því að þar er hún alls ekki ein. Þar væri nefnilega gaman að athuga hvort ekki væri nýr utanríkispólitískur meiri hluti á þinginu, ekki ríkisstjórnarmeirihluti, (Forseti hringir.) ef allir gerðu nákvæmlega það sem (Forseti hringir.) hin gljúpa hjartarót segði þeim.