139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[23:50]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður veit er ég ásamt ýmsum góðum þingmönnum í öllum flokkum einarður fylgismaður þess að þingið eflist með ráðum og dáð í sjálfstæði sínu og öllum vinnubrögðum. Ef þingmeirihluti er fyrir breyttri stefnu, hvort sem það er í ESB-málum, málefnum NATO eða annarra stórra mála, er það sjálfsögðu þingið sem á endanum ræður. Þannig er það og þannig á það að vera og við eigum að vinna að því öll saman, þingmenn allra flokka, að efla þingið mun meira en verið hefur í gegnum tíðina. Og eins og einhverjar góðar þingkonur úr Sjálfstæðisflokknum sögðu, ef ég man rétt: Við viljum ekki bara vera dömur á kassa hér í stimplunarstofnun eða á færibandi, heldur sjálfstæð, sterk löggjafarsamkunda, sterkur löggjafaraðili. Að því (Forseti hringir.) eigum við að vinna.