139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[23:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur fyrir ágæta og hjartnæma ræðu. Það er ekki oft sem maður heyrir svona. Ástandið í Kongó er náttúrlega skelfilegt. Ég hugsa að enginn hér inni geti gert sér grein fyrir því hvernig er að lifa við slíkar aðstæður. Langt í frá. Ég er reyndar ekki viss um að þetta sé allt saman vondum fjölþjóðafyrirtækjum að kenna. Það væri, held ég, frekar mikil einföldun á stöðunni því að þarna blandast inn í ættflokkadeilur og alls konar deilur, auðlindir og annað slíkt.

Við lifum í mjög harðneskjulegum heimi og hv. þingmaður gleymdi kannski mestu harðneskjunni, að það er talið að 8 milljónir manna deyi úr hungri á hverju ári. Það eru 20 þúsund manns á dag, 15 á mínútu. Á meðan ég er í andsvari núna deyja væntanlega 30 manns úr hungri. Það er mannréttindabrot að mínu mati á meðan aðrir lifa í vellystingum. Heimurinn er mjög harðneskjulegur.

Ég held að hv. þingmaður geti ekki skotið sér undan ábyrgð á þeirri ríkisstjórn sem hún styður. Ríkisstjórnin tekur ákvörðun eða hæstv. utanríkisráðherra og hann reiðir sig á stuðning Vinstri grænna. Þeir bera ábyrgð því að það er stríð í Líbíu, alveg sama hvernig menn reyna að tala sig út úr því og tala um einmanaleika og annað slíkt. Nákvæmlega eins og þeir bera ábyrgð á því að við erum að sigla hraðbyri inn í Evrópusambandið.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann, af því að hún hefur mikinn áhuga á umhverfismálum, hvort það sé ekki skylda Íslendinga að virkja t.d. í Neðri-Þjórsá vegna þeirrar koldíoxíðmengunar sem framleiðsla áls og annarrar notkunar á raforku og orku yfirleitt veldur um allan heim. Er það ekki skylda okkar að virkja eins og við mögulega getum þá hreinu orku sem við höfum á Íslandi?