139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[23:54]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held þvert á móti að það sé skylda okkar Íslendinga að vernda náttúru okkar með ráðum og dáð. Ég held að sé mikill misskilningur að halda að Ísland sé að gera heiminum eitthvert gagn með því að virkja sín stórkostlegu vatnsföll, fossa og jökulár, sem eru nú að verða náttúra í útrýmingarhættu, a.m.k. í Evrópu. Þarna er ég algjörlega ósammála hv. þm. Pétri H. Blöndal. Þarna er einmitt ein ástæða þess að ég styð heils hugar og af öllu hjarta núverandi ríkisstjórnarsamstarf vegna þess að það ríkisstjórnarsamstarf í því pólitíska landslagi sem við lifum við í dag er eina ríkisstjórnarsamstarfið sem mun, ætlar og vill setja náttúruvernd og ábyrgð í umhverfismálum ofarlega á forgangslista sinn og sína forgangsröðun.

Ég mun í hjarta mínu eiga mjög erfitt með að fyrirgefa þá hörmulegu eyðileggingu á íslenskri náttúru sem varð í tíð fyrri ríkisstjórnar, þótt ég ætli ekki að bera það á hv. þm. Pétur H. Blöndal að hann beri prívat og persónulega sök á því. Ég vil bara ítreka að það er algjör misskilningur að Ísland sé að gera heiminum gagn með því að eyðileggja sína dýrmætu náttúru, vatnsöfl og jökulár.