139. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[00:14]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil, eins og hæstv. utanríkisráðherra, nú í lok þessarar umræðu þakka fyrir hana. Ég tek undir það að hún hefur að öllu leyti verið málefnaleg þó að menn hafi verið að skiptast á skoðunum. Mig langar aðeins að dvelja við Líbíu vegna orða hæstv. utanríkisráðherra og þeirra röksemda sem hann grípur til, um að hann hafi tekið þá ákvörðun að beina því til fastafulltrúa Íslands í Norður-Atlantshafsráðinu að gera ekki athugasemd og styðja þar með yfirtöku bandalagsins á hernaðaraðgerðum í Líbíu sem, eins og margoft hefur komið fram, ég studdi — og ég styð enn þá ákvörðun. En það var ekki Alþingi Íslendinga sem sat við borðið, það var fulltrúi ríkisstjórnar Íslands og á því er greinarmunur. Með því er ég ekki með nokkrum hætti að gera lítið úr þessari virðulegu stofnun sem ég ber mikla virðingu fyrir. En staðreyndin er þessi: Það var fastafulltrúi Íslands, fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands, sem sat við borðið og sagði: Ríkisstjórn Íslands styður það að Atlantshafsbandalagið taki yfir hernaðaraðgerðir í Líbíu.

Nú hefur það komið fram hjá þremur hæstv. ráðherrum og tveimur hv. þingmönnum, bara hér í umræðum í dag, að þessi ákvörðun hafi ekki verið borin sérstaklega undir ríkisstjórnina. Hæstv. utanríkisráðherra talar um að utanríkismálanefnd hafi verið höfð með í ráðum. Það er rétt að allir gátu séð þetta fyrir sem fylgdust með heimspressunni og íslenskum fjölmiðlum, (Forseti hringir.) en það breytir ekki því að það eru að minnsta kosti tveir þingmenn Vinstri grænna í þessari umræðu einni sem hafa fordæmt þessa ákvörðun. (Forseti hringir.) Hvað finnst hæstv. ráðherra um það?