139. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[00:16]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vísa til þeirra spurninga sem ég brá hér á loft gagnvart hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur án þess endilega að biðja um svar við henni. Stjórnmálamenn standa stundum frammi fyrir svona stöðu og þurfa að taka ákvörðun mjög hratt. Í þessu tilviki er ég ekki endilega sammála því að fastafulltrúinn í Brussel hafi verið að taka ákvörðun sem ríkisstjórnin þurfti endilega að leggja blessun sína yfir, og vísa þá til fyrri raka minna gagnvart hv. þm. Birgi Ármannssyni. Sá sem gaf honum heimildina var handhafi framkvæmdarvalds sem er partur af stjórnvaldi sem ekki er fjölskipað. Með öðrum orðum: Utanríkisráðherra gat tekið þessa ákvörðun.

Þá vísa ég aftur til þess að ef slík ákvörðun er tekin af ráðherra verður hann að meta stöðuna þannig að ef hún er mjög umdeild, t.d. í hópi stjórnarliðs á hverjum tíma, þá getur hann fyrir utan að missa æruna að minnsta kosti misst stöðu sína. Í þessu tilviki taldi ég enga slíka hættu uppi. Ég taldi mig hafa gengið úr skugga um að fulltrúar allra flokka vissu að hverju stefndi og hefðu ekki reist sérstök mótmæli við því. Það breytir ekki hinu að menn geta skipt um skoðun eða látið vera að tjá hana. Ég geri engar athugasemdir við það þó að ráðherrar VG eða einstakir þingmenn VG fordæmi þessa ákvörðun. Hún var tekin á sínum tíma við sérstakar aðstæður og menn verða bara að lifa við það. Það er ekki auðvelt að taka svona ákvarðanir, en hún var tekin.