139. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[00:25]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, það er rétt, sem hæstv. ráðherra rifjar hér upp, að skattamálin, eða þær leiðir sem menn hugðust fara við skattlagningu á hugsanlegri olíuvinnslu, fældu menn frá á sínum tíma. Aðstæður eru á margan hátt breyttar. Að sumu leyti hafa þær hugsanlega, eins og hæstv. ráðherra nefnir, breyst til hins verra, en að sumu leyti til hins betra. Olíu- og gasverð er mjög hátt nú um stundir og allt útlit fyrir að það verði það áfram og hækki jafnvel enn frekar. Þó að menn finni nýjar leiðir til að vinna gas — ég tala nú ekki um skortinn í framtíðinni þegar Kínverjar og Indverjar verða komnir á bíla og allir farnir að nota þvottavélar og þurrkara og öll þessi orkufreku tæki — verður eftirspurnin eftir orkugjöfum, eins og olíu og gasi, líklega enn meira en nú er. Það ætti því að vera fullt tilefni til að kanna þessi mál til hlítar.

En ég hef áhuga á að heyra hæstv. ráðherra svara því hvort ekki komi til greina að íslenska ríkið standi að rannsóknum á borð við þær rannsóknir sem Norðmenn stunda. Þeir hafa sent sérstök leitarskip sem nota einhvers konar rafsegulbylgjur sem þeir skjóta niður á hafsbotninn til að kanna hvað leynist þar undir. Gætu Íslendingar ekki, annaðhvort sjálfir eða þá líklega frekar í samstarfi við aðra, t.d. Norðmenn, hafið leit hvað sem liði síðan hugsanlegu útboði á leyfum til að vinna út frá því sem slík leit leiddi í ljós?