139. löggjafarþing — 125. fundur,  17. maí 2011.

breytingar á stjórn fiskveiða.

[14:04]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Frumvörpin eru ekki komin á borð þingmanna og það er kannski hyggilegast að geyma í aðalatriðum mikla efnisumræðu um þau þangað til þau liggja fyrir og við getum rætt þau í eðlilegum ræðutíma. Að sjálfsögðu eru frumvörpin þannig úr garði gerð að reynt er að tryggja sjávarútveginum stöðugleika og viðunandi rekstrarumhverfi. Það er meðal annars gert með því að þeim standa þá til boða nýtingarsamningar um veiðiheimildir sínar til langs tíma, 15 ára, og réttur til viðræðna um framlengingu í önnur átta ár sem þýðir að menn sæju fram undan sér 23 ára tiltölulega stöðugt rekstrarumhverfi. Ég mótmæli því algerlega að allt í þessum frumvörpum sé neikvætt í þessum skilningi nema menn hafi þá sýn að allt nema gjörsamlega óbreytt kvótakerfi sé einhver ógnun við sjávarútveginn. Þá komast menn ekki langt í viðleitni sinni til að ná frekari sáttum um þessi mál.

Í vinnslu er hagfræðileg greining á því hvaða áhrif þessar breytingar hafa á starfsumhverfi og rekstrarskilyrði í greininni. Það er von á henni í byrjun júnímánaðar og því hefur þegar verið lýst yfir að þegar hún liggur fyrir setjist aðilar sameiginlega yfir niðurstöðurnar úr henni. Tekjustreymið í sjávarútveginum er með afbrigðum gott og fjármunamyndun mikil eins og gengi krónunnar er háttað, afurðaverð hátt og aflabrögð að uppistöðu til með ágætum.

Sjávarútvegurinn býr að þessu leyti til við alveg óvenjulega góð skilyrði en það er rétt að hann er mjög skuldugur og hv. þm. Bjarni Benediktsson ætti þá kannski líka að velta fyrir sér hvers vegna það sé. Kerfið sem hann hefur búið við undanfarin ár er svona gott að það má ekki hrófla við því en samt er sjávarútvegurinn (Gripið fram í.) svo skuldugur að það má ekki anda á hann. Gæti það verið meðal annars vegna þess að framsal í kvótakerfinu og fjárfestingar sjávarútvegsins út fyrir greinina hafa gert hann drekkskuldugan? Það er vissulega alvarleg staða sem við horfumst í augu við. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Þess vegna reyna menn að feta sig ábyrgt inn í þær breytingar sem frumvörpin munu boða. (Gripið fram í.)