139. löggjafarþing — 125. fundur,  17. maí 2011.

breytingar á stjórn fiskveiða.

[14:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er í lagi að fara 21 ár aftur í tímann þegar Sjálfstæðisflokknum hentar það, en ef við minnumst á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins á efnahagshruninu á Íslandi fyrir tveimur árum er það hryllileg fortíðarhyggja. Það er athyglisvert hvernig hv. þingmaður leggur upp mál sitt. (BjarnB: Þú sagðir að það …)

Hvað segir hv. þm. Bjarni Benediktsson? Jú, það er þetta venjulega: Kollvarpa sjávarútveginum. Hefur hv. þingmaður áhuga á málefnalegri umræðu um þessa hluti eða vill hafa fara strax ofan í skotgrafirnar? Ég get auðvitað lánað honum ágætisskóflu ef hann vill moka dýpra. Við komumst aldrei neitt áfram með þessi mál (Gripið fram í.) nema við þorum að ræða þau yfirvegað og málefnalega. Að sjálfsögðu er sú aðlögun sem er byggð inn í þessi frumvörp og stóra frumvarpið um kerfisbreytingarnar miðuð við það að búa sjávarútveginum til fullnægjandi aðlögun að breytingunum og starfsumhverfi sem liggur fyrir nægjanlega langt inn í framtíðina þannig að menn geti tekið ákvarðanir, fjárfest o.s.frv. Í staðinn fyrir árlega óvissu eða fullkomna óvissu um fyrirkomulag á fjögurra ára fresti (Forseti hringir.) í tengslum við alþingiskosningar kæmi 15 eða 23 ára tímabil. (TÞH: Leggðu þá bara frumvarpið fram.)