139. löggjafarþing — 125. fundur,  17. maí 2011.

aðgerðir NATO í Líbíu.

[14:09]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegi forseti. Seint í gærkvöldi lýsti þingflokksformaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hv. þm. Þuríður Backman, því yfir að Vinstri grænir fordæmdu loftárásir á Líbíu og ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að styðja þær aðgerðir, ákvörðun sem hafði farið fram án þeirra vitundar. Hv. þingmaður tók reyndar fram að Vinstri grænir bæru ábyrgð á ákvörðuninni sem aðilar að ríkisstjórn en fordæmdu hana engu að síður.

Fyrrverandi þingflokksformaður Vinstri grænna, hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, tók í sama streng, sagðist fordæma aðgerðirnar, að um væri að ræða forkastanlegar stjórnvaldsaðgerðir og harmaði þátttöku Íslendinga í þremur stríðum.

Annar fyrrverandi þingflokksformaður, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, sagði að ríkisstjórnin ætti að beita sér fyrir því að NATO hætti aðgerðum í Líbíu.

Er hæstv. fjármálaráðherra sammála mati þessara þingflokksformanna, núverandi og fyrrverandi? Fordæmir hann árásirnar á Líbíu og aðild Íslendinga að loftárásunum og það hvernig staðið var að ákvarðanatökunni? Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að NATO hætti loftárásum á Líbíu?