139. löggjafarþing — 125. fundur,  17. maí 2011.

heræfingar NATO hér á landi.

[14:17]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég skal reyna að upplýsa hv. þingmann, þó að hann eigi eflaust ekki síður greiða leið að flokksfélögum sínum í Sjálfstæðisflokknum sem gerðu samkomulag við Bandaríkjamenn og NATO við brottför hersins. (Gripið fram í: Og fleiri en NATO.) Ég held að þetta sé samkomulag sem gert var árið 2006 um æfingar á Íslandi sem í öllum tilvikum snerta á einhvern hátt að sjálfsögðu hernað þar sem herflugvélar koma við sögu en eru samkvæmt skilgreiningum einnig hugsaðar sem björgunaraðgerðir eða æfingar fyrir björgun vegna náttúruhamfara og annars slíks.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að ég er andvígur veru okkar í NATO. Það hefur ekki verið neitt leynimál og er ekkert sérstaklega upprifinn yfir þessum æfingum, alls ekki, og hef gagnrýnt þær en þetta er samkomulag sem Ísland gerði á sínum tíma og við erum að framfylgja. En ef hv. þingmaður er að bjóðast til samstarfs um að gera á þessu breytingar er ég fús til slíks.