139. löggjafarþing — 125. fundur,  17. maí 2011.

skýrsla um breskan flugumann.

[14:20]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég var að sjá á vefmiðlinum dv.is að skýrsla sú sem hæstv. innanríkisráðherra kallaði eftir frá ríkislögreglustjóra um breska njósnarann Mark Kennedy hefur verið gerð opinber en í þeirri skýrslu kemur nánast ekkert fram um það sem kallað var eftir, um hvort íslensk lögregluyfirvöld hafi vitað af starfsemi þessa flugumanns og njósnara sem beitti sér innan umhverfisverndarsamtaka árið 2005 og gerðist jafnframt brotlegur sem lögreglumaður með því að efna til líkamlegs sambands við eina af ungu stúlkunum sem voru þátttakendur í þessum mótmælabúðum.

Það hefur komið fram að bæði írsk og þýsk yfirvöld hafa viðurkennt að vita af þessum manni í þessu hlutverki, sama hlutverki og hann var í hér. Íslensk lögregluyfirvöld beita fyrir sig þeirri reglugerð eða samkomulagi sem þau hafa með starfsbræðrum sínum á Bretlandi að þau megi ekki gefa upp slíkar trúnaðarupplýsingar. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé tilefni til að þetta verði að utanríkismáli og að hann beini því til hæstv. utanríkisráðherra hvort ekki sé tilefni til þess að kalla sendiherra Breta á teppið og biðja um þessar upplýsingar sem íslensk lögregluyfirvöld mega ekki gefa upp.