139. löggjafarþing — 125. fundur,  17. maí 2011.

skýrsla um breskan flugumann.

[14:22]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrir nokkrum mánuðum bárust fréttir af því að breskur lögreglumaður að nafni Mark Kennedy hefði komið sér fyrir innan raða evrópskra náttúruverndarsinna sem hafa látið til sín taka í margvíslegu andófi, m.a. hér á landi við Kárahnjúka á árinu 2005 og 2006. Þessi einstaklingur er jafnframt sakaður um lögbrot eins og hv. þingmaður nefnir hér sérstaklega, að stofna til líkamlegs sambands við einstaklinga í röðum þessa fólks sem er skýlaust brot á lögum og lögreglusamþykktum alls staðar í heimi sem vill kallast siðvæddur. Þetta er skýlaust brot.

Í ljósi þessa óskaði ég eftir upplýsingum frá ríkislögreglustjóra um hvort þessi maður hefði verið hér með vitneskju íslensku lögreglunnar eða að beiðni hennar. Nú hef ég fengið skýrslu frá ríkislögreglustjóra um þetta mál þar sem fram kemur að engar heimildir, engin gögn eða vitneskja sé fyrir hendi um að svo hafi verið. En það er rétt hjá hv. þingmanni að það er jafnframt sagt í skýrslunni að ekki sé hægt að útiloka að svo hafi verið, enda kemur jafnframt fram í skýrslunni að upplýsingar gengu á milli lögregluyfirvalda hér og erlendis um mótmælendur við Kárahnjúka þannig að það kemur fram í þessari skýrslu.

Ég hygg að þarna sé verið að segja (Forseti hringir.) og hef engar efasemdir um að þarna sé verið að segja satt og rétt frá, að það eru engar heimildir fyrir því að íslenska lögreglan hafi haft vitneskju um þennan mann (Forseti hringir.) en hitt er staðfest að upplýsingar gengu þarna á milli.