139. löggjafarþing — 125. fundur,  17. maí 2011.

skýrsla um breskan flugumann.

[14:26]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Flugumenn eru að störfum í lögreglunni, hinni evrópsku og alþjóðlegu lögreglu, t.d. í heimi eiturlyfjasölu og harðra glæpa. (Gripið fram í.) Ætlar hv. þingmaður að hlusta á það sem ég er að segja? Það er svo að flugumenn eru þar að störfum og fara á milli landa, það er staðreynd.

Ég lít svo á að verkefnið sé að setja skýrar reglur hér á landi og reisa skorður við því að flugumenn séu að störfum innan hreyfinga af pólitískum toga, þar á meðal þeim hreyfingum sem hér eiga við. Það þykir mér vera verkefnið, að Íslendingar búi svo um hnútana og við búum svo um hnútana að hér séu ekki á ferðinni í pólitískum andófshópum, (Gripið fram í.) hópum af lýðræðislegum toga. (Forseti hringir.) Það er verkefnið að búa svo um hnútana og fyrir því er ég að beita mér. (Gripið fram í.) Hvort eigi að gera þetta að utanríkispólitísku máli, ég tel svo ekki vera, (Forseti hringir.) ég ætla að svara þeirri spurningu alveg afdráttarlaust. En ég tel mikilvægt að við setjum lög og reglur sem standi vörð um (Forseti hringir.) lýðræðið og um andófið ef því er að skipta.