139. löggjafarþing — 125. fundur,  17. maí 2011.

uppbygging á friðlýstum svæðum.

[14:27]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil beina fyrirspurn til umhverfisráðherra um uppbyggingu á friðlýstum svæðum. Það hefur komið í ljós í skýrslu sem var gefin út, ákaflega svartri skýrslu, að það sé veruleg þörf á uppbyggingu á ýmsum svæðum á landinu vegna ágangs ferðamanna og ýmislegs annars. Jafnframt kom fram í umræðu um náttúruverndaráætlun þar sem vernda átti brekkubobba í Mýrdal þar sem fórna átti almannahagsmunum fyrir hagsmuni einstaklinga að m.a. var rætt um Dyrhólaey og að þar hefði til að mynda friðlýsingin mistekist á margan hátt þar sem hvorki hefði gengið eftir verndaráætlun né uppbygging á staðnum. Þess vegna var það gleðilegt að í vetur tókust samningar milli Umhverfisstofnunar og sveitarfélagsins Mýrdalshrepps sem á 52% af Dyrhólaey og með stuðningi þeirra sem eiga 48% um að hefja uppbyggingu á friðlandinu sem er fuglafriðland. Markmiðið er auðvitað að sjá um umsjón og rekstur friðlandsins og Umhverfisstofnun er í samstarfi við sveitarfélagið um það en sveitarfélagið sér um daglegt eftirlit og réð landvörð sem ráðinn var á grundvelli þessa samnings í upphafi þessa mánaðar.

Umhverfisstofnun skrifaði upp á samninginn í lok apríl eða um mánaðamótin. Síðan hefur samningurinn beðið eftir staðfestingu ráðherra og ég vil því spyrja ráðherrann: Hvað veldur þeim sinnaskiptum að ráðherrann hafi ekki staðfest samninginn strax? Hvað tefur ráðherrann að skrifa undir og staðfesta? Og að lokum: Hvenær hyggst ráðherrann skrifa undir og staðfesta þennan samning? Í samningnum eða fylgigögnum er m.a. fjallað um fjármál sem tengjast þessum samningi og þar leggur Umhverfisstofnun til 4 millj. kr. og Mýrdalshreppur 3 millj. kr. Lykillinn að þessu er að hefja uppbyggingu á friðlandinu þar sem ekki er verið að að breyta einu eða neinu, það á bara að gera það sem gera þarf. Þess vegna undrar það mig og fleiri af hverju hæstv. umhverfisráðherra staðfesti ekki þennan samning strax.