139. löggjafarþing — 125. fundur,  17. maí 2011.

uppbygging á friðlýstum svæðum.

[14:30]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina og tek undir þau orð hv. þingmanns að það er ánægjulegt að nú horfumst í augu við það að við þurfum að ráðstafa fé og fólki til náttúruverndar. Við þurfum að sammælast um það, fulltrúar allra flokka hér, að horfast í augu við að náttúruvernd kostar peninga og er ekki hliðar- eða aukaafurð opinberrar umsýslu.

Varðandi þann samning sem hér er nefndur þá er það rétt sem kemur fram í máli þingmannsins að ég hef fengið til mín í umhverfisráðuneytið samning milli Umhverfisstofnunar og sveitarfélagsins um utanumhald og uppbyggingu friðlandsins í Dyrhólaey. Ég hef eins og lögin bjóða mér gefið mér tíma í að skoða allar hliðar þess máls, ég hyggst botna þá skoðun á allra næstu dögum og undirrita það væntanlega eða afgreiða a.m.k. með einhverjum hætti og vegna áhuga þingmannsins skal ég tryggja það að hann verði látinn vita þegar sá mikli viðburður á sér stað.