139. löggjafarþing — 125. fundur,  17. maí 2011.

beiðni um opinn nefndarfund.

[14:41]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vildi biðja hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur að áður en hún setur sig á háan hest í þessu máli að ómaka sig aðeins við að kynna sér dálítið bæði þingsköp Alþingis og reglur sem forsætisnefnd Alþingis hefur sett um opna fundi. Þar kemur mjög skýrt fram að skylt er að bregðast við beiðni þriðjungs nefndarmanna berist hún um að halda fundi.

Við skrifuðum þetta bréf um miðjan dag í gær og núna rétt fyrir klukkan eitt hafði ekki borist neitt svar. Eina svarið sem hafði borist var það að okkur var tilkynnt hver dagskráin yrði á morgun og þar var ekki gert ráð fyrir því að brugðist yrði við óskum okkur þremenninganna í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis. Það er hins vegar út af fyrir sig gott að hv. formaður nefndarinnar skuli þó hafa séð sóma sinn í því að koma hér upp og segja okkur að síðar verði efnt til slíks fundar. Það er skýlaus réttur okkur að slíkur fundur verði haldinn. Það er skýlaus réttur okkar að það verði gert með þeim hætti sem við óskuðum eftir og það er krafa okkar að það verði gert hið allra fyrsta úr því að það var ekki gert þannig að brugðist væri jákvætt við sanngjarnri og málefnalegri ósk sem við settum fram í bréflegu formi í gær.