139. löggjafarþing — 125. fundur,  17. maí 2011.

beiðni um opinn nefndarfund.

[14:44]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar hafði þann fyrirvara á máli sínu að svo gæti verið að hann hafi misskilið þingsköpin. Ég held að það sé alveg réttur fyrirvari hjá þingmanninum vegna þess að eins og lesið var upp af hálfu forseta er það skylda samkvæmt 2. mgr. 15. gr. þingskapa að boða fund ef þriðjungur nefndarmanna óskar eftir og taka á dagskrá það mál sem tilgreint er. (Gripið fram í: Ekki opinn fund.) Ekki opinn fund, en það var ekki það sem hv. þingmaður fjallaði um í máli sínu. [Frammíköll í þingsal.]

Hæstv. forseti. Ég vil koma með fyrirspurn um fundarstjórn forseta. Hér hefur verið tilgreint af hv. varaformanni sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að von sé á frumvörpunum á dagskrá þingsins á næstu dögum. Það eru upplýsingar sem ekki hafa verið ræddar við þingflokksformenn og ég óska eftir því að hæstv. forseti greini okkur frá því hvenær á næstu dögum þessi frumvörp verða lögð fram vegna þess að það er greinilegt að menn bíða í ofvæni. (Forseti hringir.) Við þurfum að fá góðan tíma til að ræða þessi mál en eins og allir vita eru, held ég, níu þingdagar eftir af starfsáætlun (Forseti hringir.) þingsins og ég óska því eftir að frú forseti veiti þessar upplýsingar.