139. löggjafarþing — 126. fundur,  17. maí 2011.

tollalög o.fl.

799. mál
[14:58]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka forseta þingsins og formönnum þingflokka fyrir að greiða fyrir því að þetta mál mætti komast á dagskrá í dag og hljóta afgreiðslu í þremur umræðum. Þetta er hluti af þeim ráðstöfunum sem gripið er til til að greiða fyrir gerð kjarasamninga sem tókust nýlega eins og þingmönnum er kunnugt.

Hér er á ferðinni frumvarp í fjórum greinum þar sem gert er ráð fyrir því að haldið verði áfram að dreifa gjalddögum aðflutningsgjalda, tolla og vörugjalda, fyrir atvinnulífið til að létta greiðslubyrði fyrirtækjanna enda búa þau mörg við þyngri fjárhag eftir hrun. Þetta höfum við ítrekað gert og framlengt, auðvitað alltaf í þeirri von að sá dagur kæmi að þessara ráðstafana þyrfti ekki við. Það er mat okkar nú að þeirra muni þurfa við að minnsta kosti út þetta ár og því er í 1. gr. gerð tillaga um nýtt ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 88/2005, tollalögin, þar sem gert er ráð fyrir því að gjalddagar fyrir hvert uppgjörstímabil, mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október, nóvember og desember á þessu ári, verði annars vegar 15. næsta mánaðar eftir uppgjörstímabil og hins vegar 15. annars mánaðar eftir uppgjörstímabil.

Í 2. gr. er sambærilegt ákvæði til bráðabirgða lagt til við lög nr. 97/1987, um vörugjöld, þar sem gert er ráð fyrir því að fyrir sömu uppgjörstímabil verði gjalddagar 28. dagur annars mánaðar eftir uppgjörstímabil fyrir helming gjaldanna og 28. dagur þriðja mánaðar eftir uppgjörstímabil sömuleiðis.

Í 3. gr. er síðan gert ráð fyrir því að í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, verði heimilt að draga frá þann innskatt sem er þó að þessar frestanir komi til.

Í 4. gr. er lagt til að lögin öðlist þegar gildi.

Þá er með frumvarpinu jafnframt tekið til þess gjalddaga sem var í gær og hann fellur undir þá dreifingu sem verið hefur og ráðgert er með þessu frumvarpi að standi út þetta ár.

Ég þakka hv. þingmönnum efnahags- og skattanefndar fyrir að standa að flutningi málsins og greiða með því fyrir meðferð þess í þinginu og að það geti orðið að lögum í dag.