139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

sjúkratryggingar.

784. mál
[15:06]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Sjúkratryggingar. Frumvarpið felur í sér breytingar á fyrirkomulagi kostnaðarþátttöku Sjúkratrygginga í lyfjakostnaði.

Núverandi fyrirkomulag hefur þótt fela í sér mismunun milli sjúklingahópa á grundvelli sjúkdóma auk þess sem ekkert þak er á uppsöfnuðum lyfjakostnaði einstakra sjúklinga. Meginmarkmið frumvarpsins er að auka jöfnuð sjúklinga og draga úr heildarútgjöldum þeirra sem mest þurfa á lyfjum að halda.

Í nóvember árið 2007 skipaði þáverandi heilbrigðisráðherra nefnd sem gera átti tillögur að réttlátari, einfaldari og gagnsærri greiðsluþátttöku í sjúkrakostnaði vegna lyfja og annarrar heilbrigðisþjónustu með það að leiðarljósi að verja einstaklinga gegn háum sjúkrakostnaði. Nefndin safnaði miklum upplýsingum og ítarlegar umræður fóru fram um fyrirkomulag nýs greiðsluþátttökukerfis. Gert var ráð fyrir að fjármagn fengist á fjárlögum 2009 fyrir kostnaði við áframhaldandi vinnu en það gekk ekki eftir og var nefndin lögð niður í byrjun árs 2009. Til að fylgja málinu eftir og nýta þær upplýsingar sem nefndin hafði safnað var nýr vinnuhópur skipaður í mars 2009 til að semja tillögur að nýju greiðsluþátttökukerfi fyrir lyf sem fyrsta skref í átt að réttlátara greiðsluþátttökukerfi heilbrigðisþjónustu með það að leiðarljósi að verja einstaklinga gegn háum og vaxandi kostnaði.

Í gildandi kerfi miðast greiðsluþátttakan við hverja einstaka lyfjaávísun þar sem sjúkratryggður einstaklingur greiðir ákveðið hlutfall kostnaðarins. Ekkert hámark er á heildarlyfjakostnaði sjúkratryggðra sem getur því orðið mjög hár. Kerfið er einnig flókið þar sem greiðsluþátttaka er mismikil eftir því hvaða lyfjaflokka er um að ræða. Það verður því að segjast sem er að allt of margir sjúklingar greiða verulegar upphæðir á hverju ári vegna lyfjakostnaðar þar sem núverandi greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga ver þá ekki nægilega vel.

Lyfjakostnaður sjúklinga ræðst af tegund og fjölda lyfja sem þeir taka og getur verið mjög mismunandi eftir sjúkdómum. Lyf við vissum sjúkdómum eru niðurgreidd að fullu meðan lyf við öðrum sjúkdómum eru lítið eða jafnvel ekkert niðurgreidd af Sjúkratryggingum. Í þessu felst að núverandi greiðsluþátttökukerfi mismunar sjúklingum eftir því hvaða sjúkdómur hrjáir þá.

Þær breytingar á greiðsluþátttöku sem hér eru lagðar til taka að verulegu leyti hliðsjón af kerfi sem Danir hafa notað um árabil. Munurinn á kerfi þeirra og því sem við notum er í stuttu máli sá að niðurgreiðslur þeirra taka mið af útgjöldum sjúklingsins en okkar kerfi tekur mið af kostnaði vegna einstakra lyfja.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í upphafi er tilgangur og markmið nýs greiðsluþátttökukerfis að útbúa réttlátara kerfi sem ver sjúklinga betur fyrir háum útgjöldum vegna lyfja, betur en núverandi greiðsluþátttökukerfi gerir. Ég ætla nú að lýsa megindráttum áformaðra breytinga.

Með nýja kerfinu er gert ráð fyrir að sjúkratryggðir greiði lyfjakostnað að fullu upp að ákveðnu þaki. Þegar þakinu er náð tekur við stighækkandi þátttaka Sjúkratrygginga á lyfjakostnaði sjúkratryggðra, þ.e. greiðsluþátttaka sjúkratryggðs fer stiglækkandi eftir því sem lyfjakostnaður hans eykst á 12 mánaða tímabili. Breyttu greiðsluþátttökukerfi er ætlað að jafna greiðsluþátttöku milli sjúkratryggðra með því að fella öll lyf sem Sjúkratryggingar taka þátt í að greiða í einn flokk. Þannig verður stuðlað að jafnræði milli sjúkratryggðra óháð sjúkdómum og einnig að hagkvæmari lyfjanotkun þar sem sjúkratryggðir munu hafa beinan hag af því að velja lyf á hagkvæmu verði. Nýtt kerfi mun ekki hafa í för með sér sparnað fyrir ríkissjóð heldur er um að ræða tilfærslur og breytingar á núverandi kerfi í þágu þeirra sem mest greiða fyrir lyf ásamt því að einfalda og auka gagnsæi greiðsluþátttökukerfisins.

Samkvæmt frumvarpinu getur gjald fyrir lyf verið hlutfallsgjald og þrepaskipt eftir uppsöfnuðum lyfjakostnaði sjúkratryggðs á tilteknu tímabili og skal tiltaka hlutfall, tímabil og þrep í reglugerð. Þrátt fyrir að gjald fyrir lyf megi vera lægra hjá öldruðum, öryrkjum og börnum má búast við því að sumir einstaklingar muni eiga erfitt með að ráða við háar greiðslur í upphafi tímabils. Til að bregðast við því kemur til greina að minnka það magn lyfja sem afgreitt er hverju sinni eða bjóða upp á greiðsludreifingu eða styrktarmöguleika fyrir þá tekjulægstu.

Þá má nefna að komið er betur til móts við barnafjölskyldur með því að börn undir 18 ára aldri með sama fjölskyldunúmer samkvæmt skilgreiningu þjóðskrár skuli teljast einn einstaklingur. Lyf sem Sjúkratryggingar taka ekki þátt í að greiða verður áfram án greiðsluþátttöku. Þó er gert ráð fyrir að sýklalyfjum verði bætt inn í greiðsluþátttökukerfið sem einnig kemur sér vel fyrir barnafjölskyldur.

Í breyttu kerfi verður greiðsluþátttaka ekki mismikil eftir lyfjaflokkum eins og verið hefur heldur falla lyfin að meginstefnu til öll undir sömu reglur, þ.e. í sama flokk. Þetta þýðir færri greiðslumerkingar eða tvær í stað fimm. Sjúkratryggingar taka annaðhvort þátt í greiðslu tiltekinna lyfja eða ekki. Gert er ráð fyrir að það fyrirkomulag að Sjúkratryggingar taki almennt einungis þátt í greiðslu hagkvæmustu pakkninga í ákveðnum lyfjaflokkum haldist enn um sinn óbreytt enda hafi það fyrirkomulag sparað verulega fjármuni undanfarin tvö ár.

Fjöllyfjanotkun er það kallað þegar sjúklingar nota mörg lyf samtímis en fyrir liggur að möguleikar á mistökum og milliverkunum vegna lyfja aukast í réttu hlutfalli við fjölda þeirra lyfja sem tekin eru. Mikill ávinningur felst í því að sporna gegn óhóflegri fjöllyfjanotkun um leið og komið er á nýju greiðsluþátttökukerfi lyfja, ekki einungis fjárhagslegur, heldur ekkert síður læknisfræðilegur. Því er gert ráð fyrir að í nýju greiðsluþátttökukerfi verði unnt að sækja um lyfjaskírteini til Sjúkratrygginga Íslands þegar hámarksgreiðslu á 12 mánaða tímabili er náð. Í tengslum við útgáfu lyfjaskírteina gefst tækifæri til að fara yfir fjöllyfjanotkun, hafa samband við viðkomandi lækna og óska eftir leiðréttingum sé tilefni til þess. Vegna þessa má búast við að stærsti hluti skírteinaútgáfu verði vegna sjúkratryggðra í langtímalyfjameðferð sem náð hafa hámarksþrepi í greiðsluþátttökukerfinu. Að öðru leyti verður fyrirkomulag lyfjaskírteinaútgáfu að mestu óbreytt. Þó munu bætast við skírteini vegna geðrofslyfja og til einstaklinga með geðklofa.

Forsendur fyrir nýju greiðsluþátttökukerfi eru að Sjúkratryggingar Íslands haldi utan um greiðslustöðu sjúkratryggðra og upplýsingar um greiðslustöðu þeirra liggi fyrir við afgreiðslu lyfseðla í lyfjabúðum. Stofnunin þarf að halda rafrænan gagnagrunn yfir þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að reikna út greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga og gjald sjúkratryggðs við kaup á lyfjum. Aðlaga þarf hugbúnaðarlausnir að þessum breytingum og tryggja að þær séu í samræmi við ákvæði laga um Persónuvernd. Kynna þarf hið nýja greiðsluþátttökukerfi fyrir hlutaðeigandi aðilum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að lögin taki gildi 1. október í ár.

Með frumvarpinu fylgja drög að reglugerð um hið nýja greiðsluþátttökukerfi lyfja, greiðsluþök í drögunum eru miðuð við magn- og kostnaðartölur síðasta árs. Þegar lögin taka gildi verður nauðsynlegt að miða greiðsluþök við fjárlög og nýjustu rauntölur.

Hæst. forseti. Ég hef gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins og leyfi mér því að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. heilbrigðisnefndar og til 2. umr.