139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

sjúkratryggingar.

784. mál
[15:14]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að þakka hæstv. velferðarráðherra fyrir þetta frumvarp. Unnið hefur verið lengi að þessu máli eins og hann fór yfir í framsögu sinni með frumvarpinu.

Ég vildi vekja athygli á því að um leið og frumvarpið mun jafna greiðsluþátttöku mismunandi sjúklingahópa í lyfjakostnaði og vonandi auka á jafnræði í lyfjakostnaði landsmanna tel ég mjög mikilvægt það sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að gert er ráð fyrir því að fyrir suma muni greiðslan upp að þaki geta verið ansi há ef hún kemur til í einni greiðslu, t.d. 22 þús. kr. eða eins og hjá öryrkjum 15 eða 16 þús. kr., og að þá verði möguleiki á greiðsludreifingu eða einhvers konar styrktarmöguleikar. Þar er vísað í reglugerðir um útgjöld sjúkratryggðra vegna læknishjálpar, lyfja og þjálfunar og reglugerð um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri. Það er mjög mikilvægt að hugsa til þess að 16 eða 22 þús. kr. greiðsla fyrir lyf getur verið ansi hátt hlutfall af ráðstöfunartekjum fólks og því er mjög mikilvægt að það sé tryggt að hægt sé að bjóða upp á einhvers konar greiðsludreifingu og að það séu nokkuð rúmir styrktarmöguleikar fyrir þá sem búa við kröpp kjör og langvarandi sjúkdóma. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggist breyta styrktarmöguleikunum eitthvað samhliða eða hvort hann telji ekki við hæfi að nefndin fari yfir það.