139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

sjúkratryggingar.

784. mál
[15:21]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er á svipuðum slóðum og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sem spurði hæstv. ráðherra um það sem kemur fram í umsögn fjármálaskrifstofu ráðuneytisins í fylgiskjali. Þar kemur fram að með þeim breytingum sé hugsanlegur sparnaður upp á 300 millj. kr. sem hverfi annars vegar vegna þeirra breytinga sem verða þegar gefin verða út svokölluð lyfjaskírteini. Það kemur einnig fram, eins og hv. þingmaður benti á áðan, að á ársgrundvelli megi telja að þau umframútgjöld gætu orðið á bilinu 200–320 millj. kr. Ég skil því ekki alveg hvernig á að fara í gegnum þessa umræðu ef meiningin er að ekki eigi að spara en jafnframt eigi ekki að auka útgjöld, eins og ég skildi hæstv. ráðherra.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því að þegar fjárlög voru samþykkt fyrir árið 2011 benti forstjóri Sjúkratrygginga á að sá grunnur sem þar var gat ekki gengið upp nema breyta lögunum mjög mikið. Fyrir nokkrum vikum fengum við í fjárlaganefnd upplýsingar um það frá fjármálaráðuneytinu að hallinn á Sjúkratryggingum yrði 2 milljarðar á þessu ári, þeir höfðu verulegar áhyggjur af því. Ég vil ítreka spurningu hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þannig að það fari ekki á milli mála, að með samþykkt þessara laga sé þá ekki gert ráð fyrir útgjaldaaukningu vegna þessara breytinga.

Ég vil líka spyrja sérstaklega um það sem fram kemur — starfsmönnum Sjúkratrygginga er ákveðin vorkunn, þeir verða jú að vinna eftir reglum og lögum — vegna þess að þessar breytingar gera ráð fyrir að bæta þurfi við tveimur stöðugildum hjá Sjúkratryggingum og talað er um kostnað upp á 17 milljónir. Í fyrsta lagi: Er þetta rétt? Í öðru lagi: Verður Sjúkratryggingum tryggt það fjármagn eða mun hæstv. velferðarráðherra leggja fram tillögu um það í fjáraukalögum að þetta verði bætt, þessi aukakostnaður?