139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

sjúkratryggingar.

784. mál
[15:25]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þetta útskýrði mikið fyrir mér að því leyti til að hæstv. ráðherra tekur þá tillit til þess þegar hann setur reglugerðina hvort þurfi að lækka fjárheimildirnar sem þar koma fram til að mæta þá þeirri afgreiðslu sem á sér stað í þinginu.

Ég vil hins vegar ítreka það sem ég sagði áðan að forstjóri Sjúkratrygginga kom með þau skilaboð á fund fjárlaganefndar þegar við vorum að ganga frá fjárlögum fyrir árið 2011 að ef Sjúkratryggingar ættu að standa við þann fjárhagsramma sem þær fengju þá yrði að breyta lögunum til að þær gætu staðið við hann. Þess vegna var þetta spurning mín, og það kemur réttilega fram hjá hæstv. ráðherra að auðvitað er það ákvörðun Alþingis, hvort hann mundi gera það að tillögu sinni vegna þess að ef þetta frumvarp verður samþykkt þarf að fjölga um tvo starfsmenn hjá Sjúkratryggingum og þá væri eðlilegt að það yrði gert í leiðinni og að menn gerðu sér grein fyrir því að þá yrði að sjálfsögðu að mæta þeirri útgjaldaaukningu með fjáraukalögum þannig að það væri þá skýrt inni í myndinni hvernig það yrði gert þegar umræðan fer fram.