139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

sjúkratryggingar.

784. mál
[15:30]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er gaman að fá fyrirspurn frá hv. þm. Pétri H. Blöndal sem réttilega benti á að hann stýrði þeirri nefnd sem hér var minnst á og tók til starfa árið 2007 og hafði það hlutverk einmitt að skoða heildargreiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu. Þetta breyttist yfir í það að taka lyfin sérstaklega út fyrir og þá er eftir, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, að skoða tannlæknakostnaðinn og er það í sérstakri skoðun og síðan þarf að fara yfir greiðsluþátttökuna almennt í heilbrigðiskerfinu. En til að komast eitthvað áfram var ákveðið að taka þetta út úr og ég held að það hafi verið mikilvægt fyrsta skref.

Hugmyndirnar komu m.a. frá nefnd hv. þingmanns en voru líka sóttar, eins og getið er um í greinargerðinni, í danska kerfið. Ákveðnum eiginleikum gamla kerfisins er haldið, ekki er verið að flækja það frá því sem nú er heldur er fyrst og fremst verið að nýta ákveðna þætti þannig að við séum ekki að taka of rótföst skref í einu. Sumir þeirra sem hafa notið ákveðinna forréttinda ef hægt er að orða það svo — varla er hægt tala um að það séu forréttindi að vera mikill lyfjanotandi — munu áfram njóta þeirra réttinda sem þeir höfðu áður þrátt fyrir þessa breytingu. Það er eiginlega verið að gera í meginatriðum.

Tekið er mið af almanaksárinu. Menn voru upphaflega að tala um frá 1. janúar á hverju ári. Í frumvarpinu er miðað við að ef menn byrja að nota lyf í apríl þá byrjar það ár þá. Fasta upphæðin er borguð næstu 12 mánuðina. Réttilega endar það alltaf þannig að lokagreiðslan getur dottið inn á nýtt tímabil og þá er bara miðað við næsta ár fram í tímann. Ekki er miðað við áramót.

Varðandi neyðarlyfin er væntanlega skýringin á því sú, án þess að ég ætli að fullyrða það ef ég hef ekki skilið spurninguna rétt, að þau eru greidd af sjúkrahúsunum. Ef þú liggur á sjúkrahúsi í dag þá er lyfjakostnaðurinn ekki borgaður þar, hann færist ekki þangað, og ef þú notar neyðarlyf þá borga Sjúkratryggingarnar þau ekki, heldur eru þau greidd sjúkrahúsmegin, ef ég hef skilið spurninguna rétt.